Að hylja naflann

Afmæli Önnu. Bloggheimur mættur í grímubúningum og það virðist viðeigandi. Við erum uppdiktaðar persónur, allavega að nokkru leyti og gervið má nota til að viðhalda ákveðinni fjarlægð. Gott ef mér finnst ekki hálfóþægilegt þegar ég kynni mig sem Sápuóperu og viðmælandinn spyr um eigið nafn.

Nafnið mitt er alls ekkert leyndarmál, m.a.s. birt á síðunni. Samt. Það er dálítið eins og ef maður væri beðinn að sýna á sér naflann. Naflinn á mér er ekki leyndarmál. Ég er hæstánægð með hann. Ef ég á annað borð væri dugleg að birta myndir, væri alls ekki útilokað að hér væri einhversstaðar mynd af naflanum á mér. Mér þætti samt óþægilegt ef einhver gengi að mér í samkvæmi, sýndi mér naflann á sér og færi fram á að sjá minn líka.

Á venjulegum skemmtistað, þar sem markmiðið er að verða sér úti um einhvern til að deila rúmi með þá nóttina, finnst mér fullkomlega viðeigandi að fá augngotur og önnur mökunarmerki staðfest, með því að spyrja viðkomandi hreint út hvort hann vilji gera dodo með manni. Hér er allt annað uppi á teningnum. Við erum ekki drukkið fólk á skemmtistað, heldur persónur í vefbókinni hennar Önnu, jafnraunveruleg og Ken.

Ætli nokkur annar sjái þetta í sama ljósi?

Best er að deila með því að afrita slóðina