Hönd

Ken birtist ásamt vafasömu föruneyti, ber fram bónorðið og bloggheimur þyrpist út á svalir til að sjá þegar hann kveður Engilinn (ekki engil með húfu samt) og tryllir svo burt á þeim illilega.

Einn úr hópi bloggara ryður mér leið út á svalir, styður andartak laust við bak mitt og býðst til að lyfta mér svo ég sjái betur. Eru það ósjálfráð viðbrögð karlmanns að bera verndarhönd að baki lítils kvendjöfuls sem tiplar á pinnahælum inn í þvöguna og lítur sennilega út fyrir að geta dottið? Nei, ég held að hann langi bara að snerta mig. Eða öllu heldur snerta konu. Eða snerta eitthvað Satanískt. Notalegt að finna snertingu hlýrrar handar við nakið hold, eitt andartak. „Ég elska að ríða Satan“ hljómar í höfði mínu, en ekki með hevímetalöskri, heldur með þeirri dísætu rödd sem Lærlingurinn beitir til að selja konum á sextugsaldri ilmkerti og tarotspil. Mig langar ekki rassgat að ríða. Mig langar í kossa og blóm og að liggja lengi í faðmlögum og tala um kveðskap.

Ég afþakka upplyftingarboðið. Það yrði bara ávísun á kelirí og menn yfir þrítugu greina ekki á milli tilfinningalegrar snertingar og kynferðislegrar. Kannski gera ungir strákar þennan greinarmun ekki heldur en þeir eru hlýðnari. Ég veit ekki hvort þeir skilja það beinlínis, en ungir menn sætta sig við þau rök að Sápuópera hafi aðeins mök við þá sem henni er hæfilega illa við. Mig vantar snertingu, já. En mig vantar ekki vesen og það gæti dregið dilk á eftir sér að nudda kynþokkanum utan í skoðanabróður.

Best er að deila með því að afrita slóðina