Gunnlaðarsaga á sviði

Sáum Gunnlaðarsögu hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu í gær. Stórkostleg saga á skilið að fá stórkostlega uppfærslu og ef tvö stærstu hlutverkin hefðu verið almennilega leikin hefði þetta verið fínt en því miður ræður leikurinn bara úrslitum. Ofleikur var áberandi, einkum hjá mömmunni, sem kunni heldur ekki textann nógu vel og hjá Dís sem stóð á orgunum og grenjaði á milli þess sem móðirin gerði það, stundum hljóðuðu þær báðar í einu. Það bætir svo ekki úr skák að á köflum er textinn alltof ljóðrænn til að þola ofleik.

Lögfræðingurinn var slappur, Loki ágætur en ég hefði viljað sjá töluvert þokkafyllri mann í því hlutverki, Óðinn sleppur hvað leikinn varðar en við hliðina á hinum grófgerða Loka er þessi gullfallegi maður lítill tittur og langt frá því að orka á mig sem herkonungur. Urður var nokkuð góð. Anna bar af, kom jafnvel mjög „bókmenntalegum“ línum til skila án þess að ofleika en þessi hlutverk eru ekki nógu stór til að halda sýningunni uppi.

Sviðsmyndin er skemmtileg, lýsingin hjálpar heilmikið til, búningar alveg á mörkunum. Þegar ég las bókina, kom Dís mér fyrir sjónir sem djúphugul, ung kona sem hefur orðið fyrir einstakri lífsreynslu. Í meðförum Hafnarfjarðarleikhússins er hún kenjótt smástelpa, sígrenjandi í blóðrauðum óléttukjól sem á líklega að vera táknrænn en nær því að vera neitt annað en tímavillt smekkleysa.

Það er út af fyrir sig afrek að hafa búið til leikgerð eftir jafn flókinni skáldsögu og ég held að handritið bjóði alveg upp á góða sýningu. En leikurinn þarf að batna töluvert til að sýningin geti talist góð.

Best er að deila með því að afrita slóðina