Ymprað á sannindum

Lögmál 1
Allt sem skiptir máli tekur þrefaldan þann tíma sem maður reiknaði með í upphafi.

Lögmál 2
Ef maður er svo fyrirhyggjusamur að reikna með þreföldum tíma, tekur það samt tvisvar sinnum þann tíma.

Ég hélt, fyrir þremur árum að það tæki um það bil ár að sannfæra Viðfang giftingaróra minna um að það væri góð hugmynd fyrir okkur bæði að giftast. Ég sá fyrir mér að ég myndi alltaf vera í kjól og baka brauð á sunnudagsmorgnum. Og strauja skyrturnar hans. Og hann þyrfti ekkert að kunna á borvél. Hann þyrfti bara að vera góður við mig og halda áfram að vera gáfaðri en ég.

Þar sem ég þekkti lögmálin, reiknaði ég samt með þremur árum, tvöfaldaði þann tíma og bætti m.a.s. við einu auka ári, aðallega af því að ég bar bónorðið fram í sonnettuformi og sjö ár féllu betur að forminu en sex. Auk þess hefði sex getað hljómað glyðrulega og sonnettuformið hæfir ekki dindilhosum. Ennfremur er sjö heilög tala og hjátrú hefur ekki gagnast mér neitt verr en rökfesta í þessu máli.

Það er skemmst frá því að segja að Viðfang giftingaróra minna hefur ekki litið við mér síðan og umsáturshneigð mín er ekki nógu sterk til að ég hafi gert neitt róttækt í málinu ennþá. Þar fyrir utan hef ég ekki komið mannaveiðum nógu ofarlega á forgangslistann því það er rökrétt að þjóna Mammoni á undan Frey.

Lögmál 3
Menn fara en bankainnistæður vaxa.

En nú er svo komið að mikil ástsýki hefur gripið mig og ég er svona að velta fyrir mér möguleikanum á því að fara í górillubúninginn og banka upp á hjá honum. Ef ég vil hann þá enn.

Lögmál 4
Allt sem þú vilt geturðu fengið en stundum ekki fyrr en eftir að þú ert hættur að vilja það.

Best er að deila með því að afrita slóðina