Um ofstæki mitt gagnvart reykingum

Ég held að ég hefði nú ekki vogað mér að reykja nálægt þér ef ég hefði verið búinn að lesa vefbókina þína, sagði Málarinn.

Ég benti honum á að þrátt fyrir ofstækisfullt hatur mitt á reykingum, hef ég búið með þremur mönnum og einni konu (ekki samt öllum í einu, þótt ég sé gefin fyrir stóðlífi) sem reyktu öll. Og ekki reyndi ég að koma í veg fyrir það. Öll systkini mín hafa lengst af reykt og reyndar flestir þeirra sem ég hef umgengist mest í gegnum tíðina. Ég hata nefnilega bara reykingar en ekki tóbaksfíkla og aðra sjúklinga.

Viðbjóður minn á reykingum er vissulega einlægur en trú mín á frelsi annarra til að eyða ellinni í öndunarvél, fullnýta skattfé sitt (og mitt) í gegnum heilbrigðiskerfið og gera börnin sín að munaðarleysingjum með óábyrgu líferni er samt sterkari. Ég er líka frekar spæld yfir því að ekki skuli vera til neinn skemmtistaður sem hentar meirihlutanum en ég trúi á réttinn til að bjóða upp á aðstöðu til löglegrar fíkniefnaneyslu og græða á geðrænum kvillum annarra (fíkn er ekkert annað en geðrænn kvilli).

Að vísu vil ég láta lögfesta skilyrðislaust bann við reykingum á heimilum barna og í návist þeirra en það er ekki ofstæki. Það er sjálfsagður réttur hvers manns að fá að velja hvort hann eyðileggur heilsu sína eða ekki og það val hafa börn reykingafólks ekki.

Hugsanlega er ég á undan minni samtíð hvað þessi viðhorf varðar en ég er sumsé enginn fanatíkus, bara svo það sé á hreinu. Enda myndi ég þá ekki samþykkja reykningar í návist minni, hvað þá sækjast eftir samskiptum við þá sem reykja.

Best er að deila með því að afrita slóðina