Vondgóðir dagar

Þetta eru vondgóðir dagar.

-Ég er með einhverja ógeðspest en ekki í aðstöðu til að nýta rétt minn til veikindadaga.
-Ástsjúk en hef hvorki tíma né orku til að hlaupa á eftir svoddan duttlungum, hendurnar á mér sannarlega við hæfi nornar og „slæmir hárdagar“ hafa einkennt undanfarnar vikur.

-Tekjurnar ekki í neinu samræmi við vinnuálag.
-Næ ekki símasambandi við Byltinguna og það er nóg til þess að maginn í mér hegðar sér eins og hann sé í rússíbana við hugsanleik þess að hann geri alvöru úr því að fara til Palestínu eftir áramót.
-Næ heldur engu sambandi við hann litla minn (sem verður lögformlega fullorðinn eftir 6 mánuði) þótt ég sé stödd í sama herbergi. Mér skilst að hann hafi aukið orðaforðann sinn úr já og nei í jahá og neinei á meðan hann dvaldi í Danaveldi en hann er búinn að týna honum niður aftur. Nú segir hann bara „hmprffh“.
-Netsíðan í steik.

Samt er allt að gerast.
-Öll pappírsvinna búin í bili. Jabadabadú!
-Ég er laus við bókhald Uppfinningamannsins sem ég sinnti af litlum áhuga og engri kunnáttu, bara af því að ég var svo víðáttuvitlaus að þiggja aðstoð sem ég gat ekki endurgoldið. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi gert honum neinn sérstakan greiða með því að taka þetta að mér. Lexía ársis 2005: ef þú getur ekki endurgoldið greiða með einhverju sem þú kannt nú þegar, ekki þá þiggja hann og reyna að redda því eftir á.
-Búin að ráða pappírspassara fyrir Nornabúðarveldið, konu með rétt viðhorf, rétta bókhaldskerfið og hjálpsömustu manneskju í heimi sér til halds og trausts.
-Markaðsáætlun í smíðum.
-Skriður að komast á útgáfumál (7,9,13).
-Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni hefur lýst yfir velþóknun sinni á Málaranum. Þetta er í fyrsta sinn sem hann sýnir annað en fjandskap og fyrirlitningu í garð þeirra karlmanna sem ég umgengst.

-Auk þess er Málarinn búinn að fúga og saga, trixa og laga og allt er á hraðleið til fullkomnunar.

Best er að deila með því að afrita slóðina