Norn óskast til starfa

Nú þarf ég að kynnast duglegri konu sem getur þrifið, bakað, farið í sendiferðir, lesið í bolla og tarotspil eða kristalskúlu eða einhvern fjandann, bruggað töfradrykki, útvegað flotta steina, fjaðrir, klær og tennur, séð um bókhaldið, sýnt fólki með vandamál lifandi áhuga og þagað yfir leyndarmálum, saumað, málað rúnasteina, sagað og borað, selt galdrauppskriftir og listmuni, haldið stutta fyrirlestra og verið skemmtileg allt að 14 tíma í senn, allt saman fyrir fimmhundurð kall á tímann. Má ekki vera fíkill (tóbaksfíklar eru líka fíklar), fátæklingur eða dramadrottning og ekki beina vinnufíkn sinni að einhverju öðru fyrirtæki en mínu.

Þeir sem þekkja brjálaðan vísindamann sem gæti búið til svona konu handa mér eru beðnir um að hafa samband.