Annarskonar nánd

Elías þekkir líkama minn. Svo langt sem það nær.

Hann þekkir lyktina af mér, snertinguna við hörund mitt, hreyfingar mínar. Hann veit í hvaða stellingu mér finnst best að sofna. Hann þekkir viðbrögð mín við ýmsiskonar áreiti. Hann veit reyndar ekki hvað mér finnst óþægilegt því það hefur aldrei reynt á það en hann veit hvenær er líklegast að mig kitli, hvað kemur mér til og hvers konar snerting mér finnst notaleg.

Samt er það svo skrýtið að málarinn þekkir mig að sumu leyti betur. Þ.e.a.s. líkamlega. Hann þekkir sennilega ekki lyktina af mér en hann gerir sér grein fyrir muninum á húðlitnum á hnjánum á mér og kviðnum. Hann þekkir áferð húðarinnar, hárafar og vöðvalag. Hann þekkir hverja misfellu á líkama mínum, hvern einasta fæðingarblett og hrukkurnar á kjúkunum. Hann veit nákvæmlega hversu djúpan nafla ég hef og hvernig ég klippi táneglurnar. Nú orðið veit hann nákvæmlega hvenær mér er bráðum að verða kalt og breiðir teppið yfir þann hluta skrokksins án þess að ég nefni það.

Samt hefur hann aldrei snert mig. Nema bara með handarbandi þegar við hittumst í fyrsta sinn. Hann hefur málað á mér læri, brjóst og handarkrika, m.a.s. andlit en aldrei snert mig nema með pensli eða málningarsvampi.

Nánd verður til í víðara samhengi en ég vissi.

Best er að deila með því að afrita slóðina