Yfirlýsing hrokagikks 1

Þar sem ég er iðulega ásökuð um hroka, fyrir þá skoðun mína að trú á goðmögn og þjóðsagnaverur beri vott um dómgreindarskort, vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Ég ber enga, ég endurtek ENGA virðingu fyrir þeirri hugmynd að heiminum sé stjórnað af veru sem er í senn alvitur, almáttug og algóð.

Gvuðshugmyndin er í himinhrópandi mótsögn við dómgreind mína og þar sem ég hef aldrei heyrt eða séð nein rök sem styðja hana, dreg ég þá ályktun að það sé ekki bara ég sem er treg, heldur sé hugmyndin í mótsögn við rökhugsun flestra annarra líka.

Rök trúaðra manna fyrir þeirri undarlegu hegðun algóðrar veru að koma ekki í veg fyrir hörmungar og þjáningar eru í hæsta máta óskynsamleg og geta því varla flokkast sem rök, heldur fremur útúrsnúningar. Algengt svar er t.d. að í þjáningunni felist einhver æðri tilgangur sem sé mönnum óskiljanlegur, það sé mannkyninu nauðsynlegt að þjást til að þroskast o.s.frv. Samkvæmt þessu væri auðvitað rangt að koma bágstöddum til hjálpar því þar með værum við að hindra þroskaferli sálarinnar. Aldrei hef ég samt heyrt trúað fólk halda því fram, enda stangast það á við sameiginlegar hugmyndir okkar (samvisku okkar?) um rétt og rangt.

Auk þess vita allir sem hafa sæmilega reynslu af samskiptum, að það er ekkert lögmál að þjáningar séu þroskandi.