Yfirlýsing hrokagikks 2

Ég þarf ekkert að hlusta með opnum huga á þá „skoðun“ að tvisvar sinnum tveir séu eitthvað annað en fjórir. Stærðfræði byggir á staðreyndum og þ.a.l. er hugmyndin um að tvisvar tveir séu fimm, ekki skoðun, heldur bara kjaftæði.

Flestar skoðanir eru hinsvegar ekki byggðar á staðreyndum, heldur á öðrum skoðunum og það einmitt þessvegna sem þær eru umdeilanlegar. Ég byggi t.d. þá skoðun mína að þrælahald sé óréttlætanlegt, á þeirri hugmynd að allir menn séu fæddir með rétt til frelsis og að fyrir frelsissviptingu dugi ekki þau rök að það henti einhverjum vel að geta kúgað aðra.

Ég get ekki sannað að siðferðiskennd mín sé „rétt“. Engu að síður hlýt ég að hafa einhverjar hugmyndir um rétt og rangt. Ef einhver er mér ósammála hlusta ég á rök hans, en ef siðferðiskennd hans stangast í grundvallaratriðum á við mína (viðkomandi telur t.d. að sumir kynstofnar séu öðrum æðri) þá get ég ómögulega borðið virðingu fyrir þeim rökum.