Ég á ekkert erfitt með að kynnast fólki, þannig. Ég fer hinsvegar varlega í að gera kunningsskap að vináttu. Þegar ég eignast vini er ég meðvituð um það, það gerist ekki svona óvart smátt og smátt.
Ég á ekki við að engin þróun verði á sambandi mínu við vini og kunningja en ég held að ég geri skýrari greinarmun á þessu tvennu en flestir aðrir.
Það er ekki langt síðan ég áttaði mig á því að þegar ég breyti kunningsskap í vináttu geri ég það formlega. Færi viðkomandi smágjöf, býð honum/henni í mat einum eða tilkynni bara formlega að ég óski eftir meiri og/eða nánari samskiptum. Þeir sem fara í baklás við það standast hvort sem er ekki þær kröfur sem ég geri til vina.
Stundum er eins og fólk smelli bara einhvernveginn saman án þess að dvelja lengi á kunningjastiginu. Við Keli urðum t.d. lístíðarvinir á innan við 30 mínútum og þegar ég hitti Heiðu fyrst varð ég svo viss um að við ættum vel saman að ég bankaði upp á hjá henni daginn eftir. (Hún var að vísu ekki heima).
Ég held að ég sé að eignast nýja vinkonu.