Ófyrirsjáanlegt vandamál

Sem spákonur miklar vorum við búnar að sjá fyrir ýmis vandamál. Það hafði þó ekki hvarflað að okkur að skuldafælurnar myndu seljast upp strax á öðrum degi. Að vísu erum við ákaflega hamingjusamar yfir því „vandamáli“ en í augnablikinu veit ég ekki alveg hvernig ég á að búa til tíma til að sinna bókhaldi Uppfinningamannsins og öðrum verkefnum sem ég hef tekið að mér.
Já og svo var það þetta áform mitt um að mála íbúðina í sumar. Það eru 2 mánuðir síðan ég mokaði húsgögnunum út úr herbergi prinsessunnar til að mála það. Ég er búin með gluggann. Tarotspilin segja mér að láta bara einhvern annan gera þetta fyrir mig en mér finnst frekar óþægileg tilhugsun að níðast á góðsemi annarra. Ég er bara ekki sú týpa. Auðvitað gæti ég fengið iðnaðarmenn í verkið en skuldafælan mín er hreint ekki ánægð með þá hugmynd.

Auglýsi hér með eftir góðri uppskrift af tímamögnunargaldri. Já og ef einhver skildi eiga í fórum sínum ferska hrafnstungu, það kom nefnilega kona í búðina í dag og vildi festa kaup á einni slíkri en við eigum því miður engin líffæri á lager 🙁