Ástargaldur

Ljúflingurinn sem elskar mig er svosem ágætis maður, af karlmanni að vera, en gallinn er sá að hann á konu sem er þokkalega heil á geðsmunum, af konu að vera. Mér finnst gaman að vera elskuð en hef stagast á því síðasta árið að ég kæri mig ekki um að verða hjákona hans. Það þykir honum leiðinlegt. Allavega sýndi hann gífurlegan áhuga á því að hafa mig sem frillu alveg þar til í síðustu viku.

Það vildi þannig til að ég hringdi í hann og sagðist sakna hans. Venjulega er það hann sem hringir í mig og hann hefur oft orðið hálfspældur yfir því hvað ég er leiðinleg í síma. Það hefur samt ekkert með hann að gera, mér bara leiðist að nota síma sem samskiptatæki. Hvað um það, síðustu daga hefur hann allavega verið óvenju símalatur sjálfur og ekki komið í heimsókn þótt ég hafi hvatt hann til þess. Þetta er alveg nýtt mynstur.

Lærdómurinn sem draga má af þessari sögu er enginn nýr sannleikur; viljirðu losa þig við karlmann, sýndu þá merki um að þú viljir hitta hann oftar. Þú getur t.d. notað galdraorðin „ég sakna þín“ en ef þú vilt koma manni til að hlaupa skaltu prófa að segja „ég elska þig“. Ef þú vilt hinsvegar að maðurinn elski þig, dái og þrái, svaraðu þá ekki sms boðum nema í 3. hvert sinn, ekki hringja þótt þú sjáir „missed call á símanum“ og hafðu yfir töfraþuluna „greyið mitt hættu nú þessum bjánagangi“ ef hann gerir sig líklegan til að snerta þig. Hún virkar -í alvöru. Maður þarf ekki einu sinni að mynda nornahring eða gala seið.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina