Samt er ég góður strákur

Hvað er ég að gera hér? Þegar allt kemur til alls hef ég hvorki orðið þess vör að sýn hans á manneskjuna og heiminn sé áhugaverðari en gengur og gerist né hefur hann sýnt mér persónulega athygli eða kitlað hégómagirnd mína. Hann hann er frekar klár í venjulegri merkingu þess orðs en ekki djúpvitur. Hann segir skemmtilega frá en fyndni hans er ekki á neinum heimsmælikvarða. Mér finnst hann sætur en ekki svo íðilfagur að ég myndi nenna að hanga yfir honum klukkutímum saman bara þessvegna. Auk þess er kynslóðabil á milli okkar.

Eftir sýninguna sit ég gegnt honum á kaffihúsi og reyni að átta mig á því hversvegna ég sæki í félagsskap hans. Þótt ekkert virðist beinlínis mæla með því að ég umgangist hann hef ég gert á honum nokkrar sálfræðilegar tilraunir sem sýna áhugaverða niðurstöðu. Hann hefur sætt sig við að vera tilraunadýr, líklega af því hann telur sig sjá við mér.

Ég veit að hann býr yfir einhverju sjaldgæfu og dýrmætu sem ég kann ekki skil á. Ég veit að það þjónar einhverjum tilgangi að hitta hann. Líklega á hann að kenna mér eitthvað um sjálfa mig. Ég rýni inn í dökk augu hans, hlusta með athygli á allt sem hann segir. Reyni að opna hugann betur, hugsa út fyrir rammann. Ég skammast mín í aðra röndina fyrir að sýna framkomu sem bendir til svona gífurlegs áhuga á skoðunum hans þegar mótívið er í raun svo sjálfhverft. Þegar ég er ekki bara að leita að honum heldur líka að reyna að finna einhvern lykil að sjálfri mér í gegnum hann.

Ég finn krauma í mér hvötina til að taka orðið, beina samræðunum á ákveðnar brautir en stilli mig um það. Læt hann um að leiða samtalið. Frá sameiginlegri gremju okkar yfir því að fá ekki að stjórna lífi annarra að einsemd mannsins í heiminum. Frá fíkniefnum að guðdómnum, frá spíritisma að varnarháttum sjálfsins.

Hann leggur áherslu á að þrátt fyrir allar sínar vammir og skammir sé hann samt góður strákur. Ég samþykki það hiklaust en mig rennir í grun að hann haldi að kannski haldi ég að hann sé alls ekki mjög góður strákur.
Þegar ég stend upp og þakka fyrir kvöldið segir hann;
-Heldurðu ennþá að ég sé hóra?
Reyndar hefur aldrei hvarflað að mér að hann sé neitt meiri hóra en gengur og gerist þótt ég hafi haft kvenhylli hans í flimtingum.
-Hórur eru fólk og fólk er hórur. Það sem skiptir máli er hvort við erum klassahórur eða þrælar, svara ég.

Tíminn hefur liðið hratt og ég gleymdi bílnum mínum í bílastæðahúsinu í Traðarkotssundi sem nú er lokað og læst. Kannski er dýpri merking fólgin í því: Farskjóti minn læstist inni af því að ég eyddi hálfri nóttinni í að leita að sjálfri mér í augum manns sem sér kannski ekkert í mér nema trúlausan skriðdreka sem heldur að hann sé hóra.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina