Dram dagsins

Ég er í hádramatískri sálarangist.

Loksins get ég keypt málningu á íbúðina mína. Hún er öll á litinn eins og hvítir veggir verða á heimilium þar sem er reykt innan dyra og nú er ekki einu sinni nógu dimmt á kvöldin til að maður geti falið það með kertaljósum. Ég er að velta því fyrir mér hvort þessi óþægindi í öndunarfærunum á mér, sem virðast vera orðin krónísk, séu kannski bara móðursýkisleg viðbrögð við því sem þessi eldklári líkami minn skynjar sem merki um að tóbaksreykur gæti komist í námunda við hann. Gæti líka verið ofnæmi fyrir illfyglinu en þótt heil fylking lungnasérfræðinga myndi sverja það fyrir rétti myndi Darri ekki trúa því.

Sálarangist mín stafar af því að ég veit ekkert hvernig ég vil mála hjá mér. Íbúðin er framúrstefnuleg í laginu og minimalistaliðíð hjá Völu Matt yrði áreiðanlega hrifið. En það er ekki alveg ég. Mér finnst ekkert heimilslegt við hálftómar íbúðir með einni glerskál með grænum eplum í og húsgögn sem einkennast af beinum línum og sléttum flötum, því síður finnst mér eitugrænt, skærgult og appelsínurautt passa á heimili. Ágætt í vélsmiðju kannski.

Mín innri kona er kona. Innst inni vil ég nákvæmlega það sama og ég vil yst úti. Ég vil smágerð mynstur, hlýja liti, furu með smávegis skrauti, glugga með smárúðum og listum og fullt af brúðum og öðru fallegu og rómantísku dóti. En það passar bara ekkert hérna inn. Svo vil ég líka sætan og góðan og skemmtilegan mann en svoleiðis maður passar ekki hérna inn heldur. Ef ég ætti að finna mann í stíl við íbúðina yrði það einhver artí uppskafningur sem mig langar ekki að þekkja, hvað þá að hafa heima hjá mér.

Mig langar ekki að búa í íbúðinni minni. Ég passa ekki inn í hana. Ekki frekar en fæturnir á mér passa í skó númer 39. Þessvegna á ég enga skó með 15 cm pinnahælum. Þeir fást ekki í mínu númeri, ekki frekar en karlmenn.

Kannski er það ekki bara ég. Kannski er það íbúðin sem passar ekki fyrir mig.

Samt ætla ég að mála.
-Maður verður að hafa eitthvað til að dramakastast yfir á meðan enginn karlmaður er til staðar til að viðhalda dramadrottningarsyndrominu.