Hjarta mitt svellur af kapítalisma

Nú eru 3 og hálft ár síðan ég ákvað að verða rík á næstu 5 árum. Á þeim tíma virtist það fjarstæðukennt. Ég hef yfirleitt ósköp litlar áhyggjur af trú annarra á því sem ég tek mér fyrir hendur svo ég var ekkert að liggja á þessu nýja áhugamáli mínu þótt ég ætti von á að orðið „óraunhæft“ ætti eftir að koma fyrir nokkuð oft í umræðunni. Sá spádómur gekk eftir, svo rækilega að þegar ég sagði Kela hvaða tölur ég vildi sjá, fékk hann ósvikið hláturskast.

Satt að segja miðaði mér ekki spönn fyrsta árið. Fór á fullt í tengslamarkaðssetningu (sem ég fer enn ekki ofan af að sé stórsniðugt fyrirbæri) en góðir hlutir gerðust í þessu tilviki of hægt til að koma mér af rauða svæðinu og þegar maðurinn sem ég hafði tekið að mér að ala upp, tók sæng sína og gekk, áttaði ég mig á því að ég hafði hvort sem var ekki séð hann vakandi í meira en mánuð því þá sjaldan að ég var heima var hann að vinna. Spurningin „hvað má það kosta?“ fór að banka upp á. Það góða við markmið er að það má alltaf breyta þeim. Ég ákvað að slá af kröfunni og verða frekar ríkt gamalmenni.

Ég játa: Ég geng í fötum sem systir mín Sjálfsvirðingin myndi aldrei láta sjá sig í og þigg stundum launatilboð sem hún tæki sem hreinni og klárri móðgun. Innbúið mitt er samsafn af gömlu dóti sem aðrir telja fyrir neðan sína virðingu að hafa bílskúrnum hjá sér. Synir mínir munu síðar á ævinni þarfnast sálfræðimeðferðar vegna grjónagrautar og pasta ofbeldis í barnæsku. Þetta lítur kannski ekki út eins og ég hafi arkað beina leið að markmiði mínu frá deginum sem besti vinur minn hló að heimsku minni.

Jæja ojæja, látum hann hlæja, á þeim tíma vantaði klukkuna 5 mínútur í vanskilaskrá. Ég var með allan pakkann, húsnæðis og námslán að sjálfsögðu en líka yfirdrátt og kreditkort, skuldabréf í hrönnum, bílalánið toppaði súpuna. Manni með annan fótinn á jörðinni ekki láandi þótt honum þætti manískt slag í bjartsýni minni. Nú vill svo til að ég er bara ekki þessi týpa sem lendir á vanskilaskrá. Ég bjargaði mér og ég gerði það ekki með því að fá veð í húsum annarra, félagslega aðstoð eða endalaus lán hjá vinum og ættingjum. Og þótt ætla mætti að ég hafi viljað giftast Húsasmiðnum til fjár (nú spái ég því að Keli frussi yfir skjáinn, svona er ég fyndin) er sannleikurinn sá að það ævintýri tafði mig rúmlega lítillega.

Í dag sit ég uppi með húsnæðislán og námslán. Annað er búið. Loksins. Ég lifi eins og fátæklingur en ég er búin að gera það sem skiptir mestu máli, vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til að brjótast til fjárhagslegs frelsis.

Haukur horfir á mig særðu augnaráði og spyr hvort ég sjái ekkert sjúkt og rangt við það að á meðan bókin „listin að elska“ liggur á náttborðinu hans skuli „listin að selja“ liggja á náttborðinu mínu. Ég horfi djúpt í augu hans og segi;
-yndið mitt, ég er löngu búin að læra að elska og nú ætla ég að læra að vera kapítalisti svo þú getir eytt allri ævinni í að elska heiminn og lífið og manneskjurnar án þess að hafa áhyggjur af fjármálum.

The winner takes it all. Nú kann ég að verða rík og ekkert eftir annað en að kýla á það. Næsta mál á dagskrá er að læra að elska einhvern þrautleiðinlegan kapítalista.