Leyndarmál

-Áttu leyndarmál? segi ég við Elías.
-Allir eiga leyndarmál, svarar hann.
-Ég á ekki við þessi venjulegu leyndarmál sem konur segja bara einum í einu og karlar bara kærustunni sinni eða besta vininum heldur alvöru leyndarmál sem þú segir engum.
-Allir eiga eitt eða tvö svoleiðis.
-Ekki ég.
-Nú lýgurðu.
-Nei, ég lýg ekki. Ég er sögupersóna og sögupersónur eiga ekki leyndarmál.
-Viltu að ég segi þér leyndarmál?
-Já takk.
-Finnst þér þá að þú eigir meira í mér?
-Nei. Þá finnst mér eins og þú sért af mínum heimi, sögupersóna eins og ég. Sem þarf engin leyndarmál.

Elías leggst við hliðina á mér á rauða rúmteppið og í skini kertaljóssins virðist andlit hans næstum eins og í sögu. Svo segir hann mér leyndarmál lífs síns.

-Þetta er ekkert alvöru leyndarmál, ég vissi þetta fyrir, segi ég svekkt.
-Þig grunaði það. Kannski varstu sannfærð. En þú vissir það ekki. Höfum þann mun á hreinu, segir Elías.
-Veit ég þá allt um þig núna?
-Allt sem skiptir máli.
-Og þú veist allt um mig.
-Ég veit ekki rassgat um þig en ég er sannfærður um margt, segir Elías.

-Ég veit ekkert um þig. Ekki einu sinni hvort þú elskar mig því ekki er mark að orðum.
-Samt hef ég sofið við hlið þér um nætur með bakið að brjósti þínu. Hvað segir það þér?
-Það veit ég ekkert um en hitt veit ég að það er greinilegt merki um karlmannlegan fávitagang að segjast elska mig en ætla samt að rjúka úr landi.
-Er það ekki frekar merki um fávitahátt að elska sögupersónu? svarar hann.

Þá sný ég bakinu að brjósti hans og segi honum leyndarmál lífs míns.