Hádegismatur

Ég er að hugsa um að lögsækja fyrirtækið sem sér um hádegismatinn fyrir okkur. Reyndar á vélsmiðjan heiður skilinn fyrir að sjá til þess að við fáum mat í hádeginu, það er ekkert sem fer verr í skapið á mér en að vera matarlaus í þrælavinnu, nema ef vera skyldi að vinna með letingjum og hér eru allir hörkuduglegir og ég hef aldrei verið svöng. Maturinn er samt hræðilegur og ég er nú ekki matvönd. Hef t.d. aldrei skilið hvað fólk hefur út á mötuneyti ríkisspítalanna að setja, það er bara prýðilegt mötuneyti.

Það sem skiptir mestu er samt að maður fær þó allavega næringu. Á Tímavillta Víkingnum horaðist ég niður af því að kokkarnir nenntu ekki að elda ofan í okkur og það var látið viðgangast, en nú er ég að fá vöðva. Þ.e.a.s. ég er komin með roslalegan upphandleggsvöðva á hægri handlegg. Sá vinstri er ennþá eins og á skrifstofublók. Er að reyna að nota vinstri handlegginn meira til að jafna þetta en er bara svo miklu sterkari í þeim hægri.
-Þú færð þér bara galakjól með einni ermi, segir Sigrún. Ég hef reynt miklu meira á vinstri handlegginn, þannig að við gætum keypt tvo kjóla úr sama efni, annan með ermum en hinn með hlírum. Svo tökum við aðra ermina og festum á hlírakjólinn og verðum eins og spegilmynd.

Vantar ekki ráðin hjá henni Sigrúnu. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort við eigum frekar að taka ermar sem passa á hana eða mig. Hún yrði áreiðanlega flott með ermi sem nær rétt niður fyrir olnboga. Á hinn bóginn yrði ákveðinn stíll yfir því ef ég yrði í einni ermi sem ég drægi á eftir mér. Það er allt í lagi því ég myndi bara nota hægri höndina til að gogga í mig ostapinna og snittur.