Og ég sé það fyrst á rykinu

Þremur dögum áður en Hollendingurinn fljúgandi lét mig róa, spurði hann mig hvort ég væri óánægð.

-Ekki óánægð heldur áhyggjufull, sagði ég. Þessir flutningar eru búnir að vera alveg jafn erfiðir og ég hélt að þeir yrðu og við erum ekki búin með helminginn af því sem við ætluðum. Ég er ekkert að ásaka þig, hef bara áhyggjur af því að við náum þessu ekki fyrir haustið og verðum í pappakössum fram að áramótum. Það er heldur ekkert fyrirsjánlegt að við náum því að kaupa hinn hlutann og þetta er of lítið til lengri tíma.

-Við vissum að þetta yrði lítið. Þú hefðir ekki átt að samþykkja það ef þú varst ekki sátt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það skipti þig svona miklu máli að hafa allt fullkomið, sagði hann hálfgramur.

-Það er ekkert ósanngjart þótt ég hafi áhyggjur þegar áætlanir klikka. Ef ég vildi hafa allt fullkomið hefði ég aldrei samþykkt þessi kaup. Það sem skiptir mig höfuðmáli er að vera hjá þér.
-Segðu ekki svona vitleysu. Maður á ekki að byggja hamingju sína á því að vera með öðrum. Ekki frekar en fullkomnu húsnæði, sagði hann.

-Hamingjan byggist m.a. á góðu fjölskyldulífi. Það veist þú manna best.
-En ef slitnar upp úr þessu? Hvað ætlarðu þá að gera?
Ég hugsaði mig aðeins um. Sá fyrir mér að ef ég gengi í klaustur yrði mér hent út á fyrsta degi og mér hefur alltaf þótt frekar subbulegt að stinga úr sér hjartað með gaffli.
-Finna mér annan, sagði ég en áreiðanlega án sannfæringar enda hvarflaði ekki að mér að honum væri minnsta alvara.
-Það yrði ekkert mál fyrir þig að verða ástfangin af einhverjum öðrum?
-Jújú örugglega heilmikið mál en ég er búin að fá rúmlega ógeð á því að vera ein og það skiptir ekki svo miklu máli að vera ástfanginn, það endist aldrei lengi. Af hverju spyrðu annars, stendur eitthvað til að slíta þessu eða hvað?
-Auðvitað ekki. Ég hef bara áhyggjur af því að þú lifir of mikið fyrir mig.

Mig langaði að segja honum að sambúð gengi nú einmitt út á það að lifa fyrir fjölskylduna og að ég gæti vel þegið það að hann hagaði hlutunum með meira tilliti til mín en við vorum bæði örmagna af þreytu svo ég geymdi það til betri tíma. Sá tími gafst aldrei því þremur dögum síðar, eftir nánast samfellda vinnulotu skreytta fyrrikonudrömum, tilkynnti hann mér að hann væri ekki tilbúinn í sambúð. Svo stóð hann ráðvilltur og horfði á mig á meðan ég tróð sænginni minni og orðabókunum í svartan ruslapoka og þrábað mig að borða eitthvað áður en ég færi. Rétt eins og hann hefði átt von á því að ég stoppaði hann í því að taka þessa heimskulegustu ákvörðun ævi sinnar eða að ef ég borðaði hyrfu drömin úr lífi hans og hann gæti étið dömpið ofan í sig vandræðalaust.

-Ég er samt ekki að hafna þér, sagði hann hvað eftir annað og ég sem á yfirleitt ekki í vandræðum með að svara, horfði á hann agndofa, setti svo tannburstann minn í veskið og fór. Vissi ekki hvert ég ætlaði en endaði heima hjá bróður hans.

Og núna, rúmum átta mánuðum síðar er ég jafn langt frá því að finna mér einhvern annan og hann er frá því að ljúka framkvæmdunum við þennan húshjall. Ekki af því að ég sé í neinni sorg, ég var snögg í gegnum það ferli í þetta sinn (enda í góðri æfingu) heldur af því að það skiptir víst máli.

Eftir það silkihúfusamsafn sem ég er hef orðið ástfangin af (samtals 5 menn, hver öðrum þroskaheftari á tilfinningasviðinu) hefði maður haldið að ég ætti að vera tilbúin til að slá af kröfunum. Þvert á móti verð ég stöðugt kröfuharðari.

Hingað til hef ég ekki gert aðrar kröfur til karlmann en þær að þeir séu leiðindafríir, þrífi sig af sjálfsdáðum og að ég viti nokkurnveginn hvar ég hef þann heittelskaða. Ég þekki reyndar einn sem kæmi til greina en hann er með allt niður um sig í fjármálum og það stendur ekki til bóta. Ég bara nenni ekki í svoleiðis pakka. Auglýsi hér með eftir fullkomnum manni, það er víst ekki óraunhæfara en það sem ég hef beðið um hingað til.

Best er að deila með því að afrita slóðina