Móðir mín dramadrottningin er flestu fólki lunknari við að láta dröm endast árum og jafnvel áratugum saman. Þannig hefur t.d. sápuóperuþátturinn Þjóðbúningaþjófurinn enst henni til nánast samfelldrar geðbólgu allt frá því að hún amma mín dó, vorið 1998 og fram til dagsins í dag.
Þannig var að þegar amma dó, voru einhverjar fatalufsur með því þjóðlega sniði sem gerir ráð fyrir að þjóhnappar kvenna nái frá mjóbaki og niður að hnjám, í vörslu einhverrar frænkunnar úti á landi. Nema hvað að þessi forljóti búningur hafði víst verið eign langömmu minnar og átt að ganga að erfðum til móður minnar. Nú er móðir mín að vísu ekki smekklegri í fatavali en konur af hennar kynslóð almennt, en hún er þó ekki nærri nógu hallærisleg til þess að láta nokkurn mann sjá sig í þessari miðaldamúnderingu, sem er aftur skýringin á því hversvegna þessir eldgömlu fatalarfar höfðu dagað uppi hjá ömmu.
Nú skyldi maður ætla að móðir mín dramadrottningin hefði orðið því dauðfegin að þurfa ekki að taka pláss í sínum eigin fataskáp fyrir spjarir sem henta hvorki smekk hennar né holdafari, en það er nú öðru nær. Hún hafði víst ætlað herlegheitin systur minni hinni æðrulausu, sem þrátt fyrir skelfilega ruslasöfnunaráráttu myndi heldur ekki spilla dásamlegri fegurð sinni með því að næla gamalt pottlok niður í hársvörðinn á sér með títuprónum og hárnálum (sem helst eru til þess brúklegar að draga þykkan hor úr nösum ungbarna).
Þjóðbúningaþjófurinn hefur síðan orðið móður minni endalaus uppspretta frásagna af því illa innræti sem tók pottlokið af höfði dóttur hennar, og skemmt henni við uppúrvelting þessa reiðarslags marga andvökunóttina.
Eigi þekki ég gjörla muninn á spjörum þeim sem voru brúkaðar hér á öldum áður. Sjálf á ég enga flík sem er eldri en 12 ára og þyki þó meira en í meðallagi hallærisleg. Gopi sá er um ræðir er að vísu með sæmilega huggulegu vesti með einhverju gulldrasli, sem ég gæti ímyndað mér að færi vel við níðþröngar rúskinns- eða leðurbuxur og þá á ég vitanlega við að konan yrði nakin undir vestinu, með þokkalegan barm og laus við krumpubringu. Vestið er líka það eina úr þessari samsetningu sem hlýtur náð fyrir augum mínum.
Sjálf er ég þeirrar skoðunar að allt hafi sinn verðmiða en mikið mætti þó ganga á til þess að ég fengist til að klæðast þjóðbúningi. Það væri þá helst þessi með strumpahúfunni en húfan yrði örugglega skilin eftir heima nema þeim mun glæsilegri verðlaun væru í boði. Ég hef reyndar heyrt þá kenningu að húfur strumpanna eigi rætur sínar í búningi Kú Klúx Klan en líklegra þykir mér að íslenski strumpahúfubúningurinn hafi orðið tískuhönnuði Klansins að innblæstri. Þótt ég hafi gaulað „land míns föður“ af innlifun á 18 mánaða skammti af áfengi í nokkrum rannsóknarferðum stúdenta á sokkabandsárum mínum (nota reyndar sokkabönd ennþá eg svo ber undir svo þau hljóta að standa enn), get ég ómögulega lagt nafn mitt við þá þjóðernishyggju sem varð fyrirmynd Kú Klúx Klan. Fyrir náttúrulega utan það að húfan er jafn hallærisleg og pottlokið, prjónahúfan og viskustykkið með spjaldinu upp úr. Hvernig stendur annars á því að sá höfuðbúnaður sést ekki lengur? Hann gæti hentað sköllóttum þjóðrækniskonum prýðilega.