Maðurinn sem heldur að hann elski mig gerði enn eina tilraun til að vekja áhuga minn í gær. Ég sagði honum að ég væri búin að fá yfir mig nóg af því að leyfa mér að þykja vænt um eintök af þessari stórfurðulegu skepnu, karlmanninum, vegna þess stóra galla á tegundinni að verða yfir sig ástfanginn og detta svo skyndilega niður á jörðina aftur og slíta sambandinu án nokkurrar rökrænnar skýringar. Ég sagði honum að ég myndi ekki stofna til fasts sambands fyrr en ég væri búin að kynnast einhverjum sem væri nógu viss í sinni sök til þess að láta tattóvera mynd af mér á bringuna á sér.
Nú er bara að bíða og sjá hvort hann birtist á stigapallinum hjá mér nakinn að ofan. Hvern fjandann geri ég þá? Það væri frekar svona tíkarlegt að segja „allt í plati“. Nei, ætli sé nokkur hætta á því honum sé nógu mikil alvara til þess. Hann sagði nefnilega við mig -og þarna er tegundinni rétt lýst:
-Þú myndir ekki bara sættast á demantshring?
Dööö! Hefur einhver sem þekkir mig ástæðu til að ætla að ég falli fyrir skartgripum? Hefur einhver einhverntíma séð mig bera hring? Veit nokkur hér dæmi þess að sambúð eða hjónaband hafi hangið saman á demantshring?
Æ elskan, heldurðu að þú ættir ekki allavega að prófa að lesa bloggið mitt oftar en tvisvar í mánuði áður en þú ferð að splæsa á mig demöntum? Það væri satt að segja mjög óhagkvæm fjárfesting.