Unskot!

Ég GLEYMDI að fara í Þjóðleikhússkjallarann í gærkvöld. Frétti af því að Snergillinn yrði þar uppistandandandi og svo ætluðu hinir bráðskemmtilegu Hraunverjar að heiðra tónlistargyðjuna. Ég gleymdi þessu og var komin í bælið um 11 leytið. Svaf aukinheldur til kl 11 í morgun þótt ég megi ekkert vera að því að eyða tímanum í bælinu.

Auðvitað var skynsamlegra ná svefni en fara í kjallarann og ég hefði ekki átt að eyða heilli nótt í að skrabbla og það í skítblönkum desember og ég ætti ég heldur ekki að sitja við tölvuna núna á meðan jólaskrautið liggur í kössum á gólfinu og ég er ekki einu sinni búin að verða mér úti um almennilegan bauk fyrir laufabrauðið sem við steiktum í gær. Nenni samt ekki að hafa samviskubit, maður verður stöku sinnum að gera eitthvað annað en að vinna og sofa.

Ég er meira svekkt yfir því að hafa sofið í nótt, því ég ætlaði ekki bara að skemmta mér og öðrum, heldur gerði ég mér líka vonir um að hitta nokkra þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á því að fjárfesta í fyrstu útgefinni ljóðabók upprennandi 1. þjóðskálds 21. aldarinnar en bókarnefna sú hefur nú loksins borist mér í hendur eftir mikla hrakninga milli landa. Einum farmi þegar verið fargað og þessum bjargað fyrir horn á 11. stundu.

Ég markaðsset ekki bókina af neinu viti fyrir jól héðan af en bókin er semsé til sölu hjá mér sjálfri. Ég fór með aðdáendaklúbb minn (Karl Guðmundsson) á sýningu leikfélags Hafnarfjarðar á Birdy í vikunni. Gaman að sjá eina af stelpunum mínum sem ég kenndi fyrir austan standa sig þrælvel í stóru hlutverki (veit einhver slóðina á bloggið hennar?) og mikið er hann Stebbi góður leikari. Húrra fyrir fólkinu mínu, þið eruð svoooo flott.

Best er að deila með því að afrita slóðina