Skapgerðareyðni

Manni kemur það náttúrulega ekki við. En samt hlýtur maður að segja eitthvað. Alveg eins og maður segði eitthvað ef þú ækir á ofsahraða í hálku á sumardekkjunum og ekki í bílbelti. Af því að manni kemur það eiginlega pínulítið við þegar fólk tekur áhættu sem stofnar lífi þess og annarra í voða.

Eyðnisjúklingar deyja úr kvillum sem fólk með heilbrigt ónæmiskerfi yfirvinnur. Ef þú fengir lungnabólgu í dag næðirðu þér fljótlega en ef þú værir með eyðniveiruna í þér gætirðu auðveldlega dáið. Þessvegna dytti þér heldur ekki í hug að vinna við köfun eða við að stafla kjötskrokkum í frystiklefa ef þú værir hiv smitaður. Það væri heilsu þinni bara of hættulegt og þú myndir aldrei gera fjölskyldu þinni það að taka slíka áhættu. Það er heldur engin hætta á að vinir og vandamenn myndu flokka það sem aumingjaskap að forðast banvænar aðstæður.

Vinnuumhverfi þitt er líklega ekki sérstaklega lungnabólguvaldandi en það eykur hinsvegar líkurnar á því að skapgerðareyðnin í þér taki sig upp. Af því að alkóhólismi er ekkert annað en skapgerðareyði. Og ef þú þykist geta gert þá kröfu til þíns andlega ónæmiskerfis að það ráði við aðstæður sem stórauka hættuna á því að þú veikist aftur af sjúkdómi sem undantekningarlaust elur af sér ábyrgðarleysi, eigingirni og vanhæfni til mannlegra samskipta, sjúkdómi sem með tímanum leiðir af sér alvarlega geðveiki, veldur fjölskyldu þinni óbætanlegum skaða og gæti jafnvel dregið þig til dauða; þá ertu bara alls ekki búinn að horfast í augu við sjúkdóminn.

Ég býst við að það sé ógnvekjandi að horfast í augu við allan pakkann en hver sagði að lífið ætti að vera auðvelt? Málið er að ef maður á börn þá verður maður að hafa vit á því að bíta sig kjark til að sætta sig ekki við aðstæður sem nauðsynlegt er að breyta.

Best er að deila með því að afrita slóðina