Ekki hætt að blogga

Nei. Ég er ekki alveg hætt að blogga og það er röng tilgáta hjá þér systir mín góð að ég sé dottin í ástina. Að vísu er ég búin að finna bólfélaga en hef því miður ekki varið nema 2 klst með honum ennþá.

Ástæður þess að ég hef vanrækt bloggið eru eftirfarandi:

a) vinna
b) meiri vinna
c) geðveik vinna
d) áform mín um kaup á fyrirtæki og árangurslausar tilraunir til að finna viðskiptafélaga. Ég hef ekki alveg kjark til þess að ganga inn í banka og biðja um fleiri lán í bili.
e) flutningar!

Ójá! Á miðvikudaginn hringdi konan sem ég er að kaupa af og sagði mér að þau væru búin að tæma og ág gæti fengið lykilinn og flutt inn. Og það gerði ég þrátt fyrir að vera búin að taka að mér fleiri verkefni en ég hefði átt að ná að skila skammlaust með því að gera ekkert annað.

Ég er ofurkona. Er staðráðin í að vera búin að koma heimilinu í íveruhæft ástand á mánudaginn en hluti af dótinu mínu er ennþá hjá Húsasmiðnum, hluti í bílskúrnum hjá pabba, hluti hjá Verði laganna og svo er tengdadóttir mín Sykurrófan flutt inn og við eigum líka eftir að sækja hennar föggur upp í Grafarvog. Auk þess stendur mér til boða rúm undir unga parið en það er staðsett vestur í bæ. Ojæja, þetta hefst. Ég er allavega staðráðin í því að ef ég flyt einhverntíma aftur, þá flyt ég í kastala og kaupi allt nýtt og menn til að koma því fyrir og losa mig við gömlu búslóðina. Í alvöru, í fullri alvöru, ég mun aldrei framar flytja eigur mínar á milli húsa nema myndaalbúmin, orðabækurnar og nokkra persónulega dýrgripi sem strákarnir mínir hafa búið til.

Best er að deila með því að afrita slóðina