Árekstur

Byrjaði daginn á umferðaróhappi. Spjátrungur nokkur í D-lista múnderingu renndi aftan á mig á biðskyldu. Sem betur fer var þetta í morguntraffíkinni og sökum vegavinnu, myrkurs, umferðarþunga og hálkubletta var hraðinn á báðum bílunum lítill. Engin meiðsl á fólki og aðeins smávægilegur skaði á bílunum, ég sá ekki betur en að þetta væri nokkuð góður árekstur, ef hægt er að nota það orð um eitthvað sem er í eðli sínu óheppilegt.

Ég hef lent í smávægilegum árekstrum tvisvar áður og í bæði skiptin var það leyst með því að tjónaskýrsla var gerð í samvinnu bílstjóranna og tryggingarnar svo látnar um málin. Ég hélt að það væru bara þægilegustu viðbrögðin við lítilsháttar óhöppum og gerði einhvernveginn ráð fyrir því að þetta mál yrði leyst á sama hátt. Varð því nokkuð hvumsa þegar ökumaðurinn brást reiður við, þar sem ég hefði (að hans mati) haft nógan tíma til að komast út á aðalveginn og þ.a.l. ætti ég sök á því hvernig komið væri. Ég fann strax til með veslings manninum sem hefur líklega átt von á að ég bæðist innvirðulega afsökunar á því að hann skyldi hafa tafist við að aka á mig og byðist til að bæta honum tjónið.

Þar sem tíkarlegt eðli mitt er samúð minni yfirsterkara, gaf ég ekkert út á hugmyndir hans um skort á heilastarfsemi minni, heldur lagði til að við létum tryggingafélögin um að meta það hvort okkar bæri ábyrgð á tjóninu. Hann taldi sjálfan sig mun hæfari til þess. Ég svaraði því engu, tilkynnti honum bara að ég ætlaði að leita aðstoðar við að fylla út tjónaskýrslu og hringdi á lögguna. Sá reiði snerist á hæli heldur snúðiglega, öslaði krapann á spariskónum með hinum mesta glæsibrag í átt að sinni eðalbifreið og skellti hurðinni af mikilli karlmennsku.

Þegar lögreglubílinn bar að snaraðist ökuþórinn út úr sjálfrennireið sinni og hóf strax að útskýra fyrir lögreglumönnunum hvílíkan fávitahátt ég hefði gert mig seka um. Annar þeirra spurði hvort við vildum gera tjónaskýrslu sjálf eða hvort við vildum lögregluskýrslu. Ég óskaði eftir lögregluskýrslu en sá reiði taldi ekki ástæðu til þess enda kvað hann engan ágreining uppi um það hvað hefði gerst.

-Ertu mótfallinn því að gefa skýrslu? spurði ég.
Hann sagðist ekkert hafa á móti því en gaf í skyn að ég hefði þegar tafið hann óhóflega.

Jæja. Þeir tóku semsagt skýrslu af okkur í sitthvoru lagi og nú bíð ég bara eftir því að ökuleyfi mitt verði afturkallað sökum þess fávitagangs sem ég óverðug sýndi með því að láta þennan fína bíl rekast á minn, þar sem algerlega ástæðulaust var að taka mark á biðskyldumerki.

Best er að deila með því að afrita slóðina