Ostagerðarpælingar

Úps! Maður vanrækir bloggið í 2 daga og þá er bara svo margt búið að ske að maður kemst ekki yfir að skrifa um það.

Hitti Húsasmiðinn í gær og við kláruðum að ganga frá fjármálunum. Kom betur út fyrir mig en ég átti von á svo ég sé fram á að 1. des. reddist eftir allt saman.

Ostagerðin sem ég féll fyrir í maí í fyrra er til sölu og mig langar svooooo mikið að kaupa hana. Þegar ég kom þangað fyrst sagði ég Spúnkhildi að ég ætlaði að kaupa hana. Dró móður mína með mér til að skoða hana í gær, í von um að hún félli fyrir henni og vildi kaupa hana með mér eða bara kaupa hana sjálf og láta mig um reksturinn. Hún hnussaði:

-Ég skil vel að þú viljir ekki þessa vinnu sem þú í en til hvers viltu kaupa þetta, heldurðu að sé eitthvað skárra upp úr þessu að hafa?
-Það er ekkert að vinnunni minni nema launin. Ég bara hata að vinna hjá öðrum. Alveg sama hvað ég hef yndislega og góða yfirmenn, ég bara vil það ekki, vil frekar vera á sömu skítalaununum hjá sjálfri mér.
-Fuss! Og hvað heldur hún eiginlega að hún sé að selja, gúddvillið kannski?
-Já, sagði ég, og öll tæki og annan búnað og leigan er sanngjörn.
-Það er nú ekkert mál að setja svona á laggirnar, þú færir létt með það, sagði hún sem aldrei hefur stofnað fyrirtæki, ekki einu sinni reynt það svo ég viti.

-Hnussfuss, og svo er þetta engin velta heldur.
-Ég veit að það er nóg að gera hérna, veltan er að verulegu leyti svört og ég get gert betur.
-Hnuss!
Sumsé ekki mikið meira en hnuss og fuss á þeim bæ. Sé ekki betur en að yfirborðsflatarmál hennar hafi enn aukist og nú vill hún endilega flytja í hús á einni hæð og taka þar með af sjálfri sér einu hreyfinguna sem hún hefur. Ég hef verulegar áhyggjur af því að hún leggist í kör fyrir aldur fram en hún virðist algerlega fösti í getekki gírnum.

Svo nú þarf ég að redda nokkrum milljónköllum. Tala við bankastjóra eða finna einhvern sem á milljónkalla og vill bissnissa með mér.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Best er að deila með því að afrita slóðina