Til hamingju þú ert afburðagreind

Í morgun tók ég greindarpróf á netinu. Í niðurstöðu segir að ég sé hinn mesti snillingur og það kom ekki á óvart þar sem prófið er svo létt að það hlýtur að vera hannað fyrir krakka eða hálfvita.

Nokkrum klukkustundum síðar fékk ég tölvupóst með hamingjuóskum um það hversu mikið gáfnakvendi ég væri og var mér var boðið að skoða niðurstöðurnar nánar. Mig langaði að sjá hvort ég hefði gert einhverja villu og fór þessvegna inn á netslóðina sem var gefin upp í skeytinu. Prófið kom upp með réttum svörum og útskýringum á því hvernig ætti að komast að réttri niðurstöðu. Ég komst hinsvegar ekki nógu langt til að finna út hvort og þá hvað ég hefði gert vitlaust, því eftir hverjar tvær spurningar kom upp gluggi með tilboði um að kaupa hrukkukrem. Eftir að hafa afþakkað sama hrukkukremið 3-4 sinnum nennti ég þessu ekki lengur.

Ætli hugmyndin með þessu sé sú að konur sem eru nógu vitlausar til að trúa því að svona létt próf sé marktækt séu líka nógu vitlausar til að láta selja sér hrukkukrem? Eða er auðveldara að selja konum sem telja sig gáfaðar hrukkukrem af því að þær hafa a.m.k. vit á því að reyna að líta sæmilega út? Eða eru þetta skilboð til þeirra sem koma illa út úr prófinu um að fyrst þær séu svona heimskar sé ekki annað vænna í stöðunni en að reyna allavega að halda í unglegt útlit? Mig langar að vita hvaða auglýsingar koma upp ef maður skráir sig inn sem karlmann, tvítuga stúlku eða 72ja ára konu og hvort sama auglýsing kemur upp ef maður svarar prófinu eins og vanviti. Nenni samt ekki að standa í því núna en ef einhver lesenda hefur tekið prófið væri gaman að fá að vita hvort sama auglýsingin kom upp.

Best er að deila með því að afrita slóðina