Vettvangsrannsókn

Vettvangsrannsókn á heimili vonbiðils míns (ekki annars þeirra sem mættu í Perluna) leiddi eftirfarandi í ljós:

-Umsækjandi er lítill, laglegur og býður af sér góðan þokka.
-Hann er í alvörunni einstæður 3ja barna faðir til margra ára og standa góðar vonir til að sú staðreynd dragi verulega úr líkunum á barnsleysisdrama.
-Aðstæður eru aukinheldur þess eðlis að líkurnar á barnsmæðradrama eru hverfandi.
-Viðkomandi er annaðhvort algerlega laus við skuldbindingafælni og annan töffarahátt og hefur meiri áhuga á föstu sambandi en skyndikynnum, eða þá að leiklistarheimurinn hefur misst af frábærum talent.
-Sé maðurinn ekki þeim mun hæfileikaríkari lygari er hann með ágæta iðnmenntun og þar með ætti að vera lágmarkshætta á minnimáttar ég er menntaður í skóla lífsins-komplexum, listamannakomplexum eða fræðimannsdrama.
-Starf umsækjanda er þess eðlis að fífl myndi ekki tolla í því til lengdar. Starf hans og starfsaldur benda því til þess að hann sé a.m.k. áreiðanlegur.
-Híbýli umsækjanda benda til þess að hann sé ekki bara húsvanur heldur beinlínis húslegur.
-Innihald frystikistu umsækjanda gefur vísbendingu um að maðurinn kunni að vera hagsýnn húsfaðir.
-Húsnæði hans og innbú benda fastlega til þess að hann hafi þokkalega stjórn á fjármálum sínum.
-Maðurinn virðist, allavega við fyrstu kynni, vera blessunarlega laus við að vera leiðinlegur.
-Að eigin sögn er umsækjandi ekki mikill drykkjumaður og stuðbolti. Ég tek því þó með fyrirvara eins og öllu sem menn segja um eigin drykkju- og partýhneigð.

-Umsækjandi er samkvæmt ofangreindu nógu áhugaverður til þess að ég ætla að fara með honum í leikhús um helgina.

Best er að deila með því að afrita slóðina