Þá er komið að því

Þá er nú bara komið að því að Eva verði sér úti um eigulegan mann. Eða í versta falli frambærilegan bólfélaga. Eftir nokkra klukkutíma, nánar tiltekið kl. 14:00 í dag, mun ég taka á móti vonbiðlum mínum á kaffiteríu Perlunnar. Að vísu var dálítið vesen að finna miðavél (svo menn geti tekið númer) en það hafðist á endanum og ég er búin að finna 3 þrautir sem umsækjendum í hvorum flokki (bólfélagaflokki og kærastaflokki) verður uppálagt að leysa.

Ýmsir hafa spáð því að mæting verði vonum lakari og nokkrir hafa jafnvel haft það á orði að ég hljóti að vera galin. Ekki ætla ég að mótmæla þeirri kenningu að ég kunni að eiga við nokkra brjálsemi að etja enda mikið hættuspil að eiga 7 mínútna spjall við ókunnugan mann á kaffihúsi um miðjan dag. Það gæti jafnvel orðið til þess að einhverjum þætti ég skrýtin og það eru náttúrulega ill örlög.

En vogun vinnur vogun tapar og samkvæmt reglunum „hvað er það versta sem getur gerst?“ og „mun ég sjá eftir því?“ er nákvæmlega ekkert sem mælir á móti þessu. Það versta sem getur gerst er að það komi eingöngu ljótir og leiðinlegir dónar. Leiðinlegt fólk hefur þann stóra kost að það er tiltölulega auðvelt að gera grín að því svo ef það gerist get ég þó alltaf spunnið einhvern skemmtilegan texta upp úr samtölunum. Það næstversta sem getur gerst er að enginn komi en þá nota ég bara tímann til að skrifa auglýsingatexta sem ég þarf að klára á næstunni hvort sem er. Hvernig sem á það er litið verður þannig til nokkurs unnið og því engin hætta á að ég sjái eftir þessum 90 mínútum.

Jæja, ég þarf víst að koma mér að verki, fjandans vesen að þurfa alltaf að vera vinna, það slítur svo í sundur fyrir manni daginn.

Best er að deila með því að afrita slóðina