Í lausu lofti

Líf mitt er einhvernveginn ekkert.

Ég er í allt of dýru bráðabirgðahúsnæði, sef með Byltingunni og Sykurrófunni í herbergi. Það stendur til bóta því ég fæ íbúðina mína afhenta um mánaðamótin en á meðan þetta ástand varir get ég ekki boðið fólki heim og mér líður ekki eins og ég sé heima hjá mér.

Ég er í bráðabirgðavinnu. Mér líður að vísu vel þar en launin duga fjölskyldunni ekki til framfærslu nema með ofboðslegri yfirvinnu. Hef mig samt ekki í að sækja um eitthvað almennilegt og langar ekki einu sinni til þess. „Hvað ertu eiginlega að gera hér, manneskja með alla þessa menntun?“ spyr samstarfsfólk mitt forviða og ég get ekki útskýrt hvað er að því ég skil það ekki sjálf.

Ég er makalaus, á ekki einu sinni fastan bólfélaga. Sef hjá Rikka af og til en það er ekkert meira og engin regla á því. Dauðlangar í mann en makaleit mín hefur verið frekar ómarkviss hingað til. Er reyndar enganveginn tilbúin í sambúð enn en mig vantar kærasta. Einhvern sem er meira en bólfélagi.

Ég hef ekki skrifað neitt nema dagbók lengi og er ekki að gera neitt uppbyggilegt.

Ég verð að taka mig saman í andlitinu og gera eitthvað við líf mitt. Bara verð.

Best er að deila með því að afrita slóðina