Missed call

Missed call á símanum mínum þegar ég lauk vinnu í gærkvöld. Hringt frá veitingahúsi í Reykjavík. Ég held ég viti hver var að reyna að ná í mig en hversvegna notaði hann ekki gemsann sinn? Ef ég hefði símanúmerið hans, myndi ég þá hringja, bara til að tékka á því hvort hann hefði verið að reyna að ná í mig? Hvað myndi ég þá segja?

-Sæll, þetta er indiánakonan Ýlandi Dræsa, sá að einhver hefur hringt í mig og þekki engan annan sem kemur til greina. Nú varst það ekki þú. Jæja góði, haltu þá bara áfram að skemmta þér.

Eða:

-Sæll. Ertu til í að klára úr glasinu þínu og drífa þig heim. Ég er á leiðinni. Núnú, bara búinn að redda dömu fyrir nóttina og klukkan ekki meira en þetta, þú ert heppinn. Sjáumst þá bara seinna.

Eða bara þetta klassiska:

-Ég þarf að vinna í fyrramálið og nenni ekki að standa í því að daðra við þig. Ertu til í að sofa hjá mér í nótt?

Nei líklega myndi ég ekki hringja. Það væri ekki viðeigandi.

Þegar ég kem heim liggur miði með gms símanúmeri sem ég þekki ekki á borðinu, tek hann upp og sé í gegnum hann að eitthvað er ritað á bakhliðina. Kannski eru þetta skilaboð til mín um að ég eigi að hringja. Kannski frá þeim sem ég held að hafi hringt í gemsann minn í kvöld. Kannski er þetta vísbending frá Guði um að draumaprinsinn bíði mín á tilteknu veitingahúsi í Reykjavík.

Sný miðanum við. Nei þetta eru engin skilaboð frá draumaprinsinum til mín. Bara miði sem sonur minn hefur hripað á nafn og símanúmer fyrir sjálfan sig, vegna vinnunnar. Símanúmer Bruggarans.

Best er að deila með því að afrita slóðina