Ekki mætti Hótelstjórinn

Ekki mætti Hótelstjórinn til hýðingar í morgun. Var enn ekki kominn þegar ég lauk skúringunum, uppstríluð í leðurdress og með þennan líka fína písk. Litli kokkadrengurinn Keikó varð fyrir nettu áfalli þegar hann kom á staðinn og mætti mér í leðurmúnderingunni. Ég lét hann að vísu vita í gærkvöldi að ég hikaði ekki við að beita fólk andlegu ofbeldi ef það léti ekki að stjórn en mig grunar að hann hafi efast um að ég ætii hundaól til að temja strákkjána ef þeir gera sig breiða við eldhússstúlkurnar. Hann efast ekki lengur svo mikið er víst. Hann var að vísu svo kurteis að láta sem hann tæki ekki eftir þessum sérstæða vinnuklæðnaði en roðnaði upp í hársrætur þegar hann sá stinnar geirv … nei heyrðu, nú er nóg komið af klámi og sora, ætli ég sé haldin einhverju skriflegu afbrigði af tourette-heilkenninu?

Reyndar held ég að fimmtudagsbloggið sé fullnægjandi sem andleg flenging fyrir blessaðan Hótelstjórann. Í gærkvöld var hann hálf miður sín yfir því að ég skyldi kalla hann kapítalista. Ég get svosem skilið það, það er náttúrulega ekki falleg umsögn. Ég var of hörð við hann. Veit að hann í hjarta sér hið mesta blómabarn og áreiðanlega laumukommi. Hefur sennilega kosið VG allt frá stofnun flokksins. Auk þess tilkynnti Keikó litli mér í gærkvöld að nú væri umsamið að karlmannlegum búk hans yrði framvegis beitt í baráttunni við hvíta skrímslið, jibbý!!!

Ég reikna aukinheldur með að dansleikjahald í húsinu heyri nú sögunni til. Allavega hringdi í morgun ákaflega kurteis maður frá Briddsklúbbnum Sannir séntilmenn og vildi fá staðfest að hann fengi húsið leigt undir briddsmót öll laugardagskvöld í desember og febrúar. Ég lofaði því vitanlega með glöðu geði.

Já, ég sé ekki betur en að Hótelstjórinn sé allur að koma til. Hann hefur reyndar ekki ennþá fallið fram og tilbeðið mig en það er sem ég segi; maður fær ekki allt. Allavega ekki allt í einu.

Best er að deila með því að afrita slóðina