Lykillinn að hamingjunni

Ég er loksins búin að finna lykilinn að lífshamingjunni. Þ.e.a.s. ekki minni eigin lífshamingju, heldur lífshamingju mjög margra annarra. Ég gæti semsé gert margt fólk afar hamingjusamt með því að ráða mig í framhaldsskólakennslu og kaupa þokkalega blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu, helst í Breiðholtinu eða Hafnarfirði.

Á meðan ég er á leigumarkaðnum og vinn negravinnu, að ég tali nú ekki um glapræði eins og að taka að mér verkefni sem sjálfstæður verktaki, ber ég hins vegar ábyrgð á þungum áhyggjum og mikilli mæðu fólks sem aldrei hefur þurft að leggja á sig nokkurn skapaðan hlut mín vegna en sefur samt varla fyrir armæðu yfir því hvað allt hljóti að vera óskaplega erfitt hjá mér. Vald mitt yfir hamingju annarra er greinilega meira en svo að ég nái almennilega upp í það og stór spurning hvort ég eigi ekki að drífa í því að verða mér úti um starf sem ég vil ekki vinna og íbúð sem ég vil ekki búa í, svona rétt til að róa aðeins þetta velviljaða fólk sem ber velferð mína svo hjartanlega fyrir brjósti.

Það merkilegasta er að ég hef alls ekki tekið eftir því sjálf hvað þetta hefur allt verið óskaplega erfitt hjá mér. Ég er að vísu komin með krónískt ógeð á flutningum og skil ekki einnþá hvers vegna þeir karlmenn sem mér þykir vænt um eiga alltaf svona óskaplega erfitt með skuldbindingar (þ.e.a.s. gagnvart mér) en ég hélt að það væri nú bara hluti af lífinu að þurfa að standa í lítilsháttar böggi af og til. Hrikalegt að það skuli skyggja svona mikið á hamingju fólks sem tæplega getur talist mér viðkomandi.

Best er að deila með því að afrita slóðina