Að elska

Að lokum sæki ég sængina mína í bílskúrinn hans pabba. Hún lyktar eins og húsasmiðurinn. Og drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni sestur á rúmstokkinn.

-Til hvers ertu að sóa kröftum þínum í að elska þennan hálfvita? segir hann.
-Hann er enginn hálfviti, segi ég. Auk þess veit ég ekki hvort ég er ástfangin af honum og ef maður er ekki viss þá er maður það sennilega ekki.
-Stundum held ég að þú sért ekki eins meðvituð og þú þykist vera, segir hann.
-Jæja. Þú elskar konuna þína er það ekki?
-Jú, mjög mikið.
-Og hvernig geturðu verið svona viss um að það sé ást en ekki eitthvað annað*? Hvernig lýsir það sér?

Hann yppti öxlum.
-Þetta er ekki svona flókið Eva. Ég kýs návist hennar. Þetta snýst bara um það.
-Ertu þá ekki bara að segja að þú þarfnist hennar? Á það eitthvað skylt við ást?
-Auðvitað þarfnast ég hennar. Maður þarfnast alltaf einhvers og ég valdi að klína þeirri þörf á hana. Ég valdi það skilurðu af því að það var praktískt.
-Þú átt við að þú hafir hugsað sem svo; þarna er kona sem sennilega svarar þörfum mínum og væri líklega praktískt að eyða lífnu með, best að drífa í því að elska hana, elski, elski, elsk, og bingó -þú varðst ástfanginn?
-Kannski ekki alveg svona meðvitað en já, ég KÝS návist hennar.

-Hvernig komstu að þessari niðurstöðu? sagði ég og grúfði andlitið í sængina, fulla af ilmi manns sem þvert á fyrri yfirlýsingar kaus ekki návist mína en staðhæfði samt sem áður að hann elskaði mig.
-Ég er karlmaður, sagði hann. Karlmenn eru heimskir og vilja hafa hlutina einfalda. Þetta er bara mjög einföld og fljótleg leið til að skera út um það hvort samband er þess virði að fórna einhverju fyrir það. Kýs ég návist hennar? -Já. Nógu oft til að vilja búa með henni? -Já. Ergó, þá hlýt ég að elska hana. Þú verður að játa að það þarf ekki stærðfræðing til að sjá þetta.

Stundum held ég að drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni sé gáfaðri en hann lítur út fyrir að vera.

Best er að deila með því að afrita slóðina