Betri tíð

Það er engu líkara en að heppnin hafi ákveðið að leggja mig í einelti.

Fyrst lendi ég í vinnu hjá manni sem á einmitt leiguíbúð sem hentar mér, á frábærum stað. Svo fæ ég brilliant hugmynd um það hvernig ég get auglýst bókina mína með lágmarks vinnu, lágmarks kostnaði og án þess að þurfa að leika sölumann.

Þar næst hitti ég uppfinningamann og hann útvegaði mér verkefni sem hentar mér fullkomlega. Sumsé að smíða rafeindabúnað. Hljómar sennilega ekkert líkt mér en þetta er engin stærðfræði, bara handavinna, álíka flókin og prjónaskapur. Þetta verður ekkert mál, byrja bara á léttustu „mynstrunum“ og ég má gera þetta þegar mér sýnist, þar sem mér sýnist og á þeim hraða sem mér sýnist. Það besta af öllu er að það er einmitt svona dútl, rólegheita handavinna sem ég nota helst til að slaka á. Ég hef nefnilega aldrei fundið fyrir þessari værð sem á að færast yfir mann á gönguferðum. Reyndar geng ég 3 tíma á dag og ætti samkvæmt því að vera pollróleg en ég finn bara fyrir bólgum í ökklunum. Reyndar er frábært að vera svona mikið úti. Ég hef aldrei verið dugleg við að fara út bara til að fara út, þarf að eiga erindi. En þetta virkar vel, nú á ég sannarlega erindi og ég hef verið einstaklega heppin með veður og auk þess ætti þetta að draga eitthvað úr áhrifum þyngdarlögmálsins á minn stórvaxna afturenda.

Svo til að toppa þetta allt saman er ákveðinn sjarmur að gefa mér auga. Ég held reyndar að hann sé full heilbrigður fyrir minn smekk en það getur vel verið að ég nýti hann sem bólfélaga þar til á fjörur mínar rekur einhvern nógu tilltislausan til að mér takist að meiða mig á honum.

Þetta er allavega þó nokkuð góð tíð og hlýtur að enda með einhverri allsherjar hamingju.

Best er að deila með því að afrita slóðina