Dúllan safnarans

Unnusti minn Safnarinn á, auk steinasafns, geisladiskasafns og annarra hefðbundinna safna, 6 ausur, 11 tegundir af morgunkorni, og í eldhússkápnum hans eru 11 nýjar ljósaperur. Hann á 11 jakka og 11 kommóðuskúffur fullar af sokkum (ok þetta síðasta er kannski dálítið ýkt en hann gæti samt opnað sokkamarkað.)

Mér skilst að veiðimenn og safnarar vinni prýðilega saman og er það vel því sjálf er ég miklu meiri veiðimaður en safnari og samkvæmt því ætti samstarf okkar að verða farsælt.

Að vísu harðneitar hann því sjálfur að hann sé meiri safnari en veiðimaður. 26 mismunandi buxur, 18 skyrtur og 7 peysur (sem allar eru „uppáhaldspeysan“ hans) skýrast af því að hann er „athafnamaður“ en ekki safnari og morgunkornssafnið skrifar hann á reikning barnanna sinna. Veiðimennskan kemur að hans eigin sögn best fram í sölumannshæfni hans en safnareðlið er merki um hagsýni og nýtni en ekki áráttu.

Ojæja, kannski búa í honum bæði veiðimaður og safnari. Því ekki? Þegar allt kemur til alls er hann mótsagnakenndur karakter, nýtur sín með borvél en sefur þó við gyllt silkirúmföt og í alvöru talað, hann á baðdúllu!, hvíta nælondúllu til að hreinsa burt dauðar húðfrumur. Ég veit ekki hvort hann keypti hana af því að honum þyki fyndið að eiga baðdúllu eða hvort hann notar hana í alvöru. Sjálfur segir hann að baðdúlla sé til margra hluta nytsamleg, hana megi t.d. nota sem hárskraut nú eða þá kanínudindil, ef maður á annað borð er hrifinn af kanínum, Hmmm… einhvernveginn finnst mér eins og borvélin fari honum betur.

Hollendingurinn fljúgandi er tekinn upp á því að kalla mig „dúllu“. Orðið „dúlla“ hefur hingað til valdið því að ég sé fyrir mér púddelhund með bleikar slaufur í eyrunum og fæ Litla, sæta ljúfan góða á heilann. Síðustu daga hafa önnur áhrif og sterkari tekið yfir þegar Hollendingurinn fljúgandi klípur í rassinn á mér og notar þetta væma orð til að stríða mér. Ég sé Safnarann fyrir mér, ýmist í baði, nuddandi karlmannlegan brjóstkassa sinn með baðdúllu, eða með borvél á lofti, klæddan að hætti playboykanínu. Mér hefur alltaf þótt eitthvað svo heimilislegt að sjá karlmann bjástra við smíðar og lagfæringar. Það hljómar kannski andfeministalega en karlmaður með borvél vekur mér öryggiskennd. Vekur hjá mér löngun til að steikja kleinur eða strauja þvott. Eða gerði það allvega. Nú er mér farið að finnast það dálítið „dúllulegt“ í aðra röndina að sjá mann með borvél.