-Ég hélt að þú hefðir trúað mér. Hélt að þú hefðir notað þessar ásakanir sem átyllu til að slíta tengslum við mig. Ég er ósáttur við það. Finnst sárt að þú trúir mér ekki og svo hef ég saknað þín.
Hann þekkir mig svooo vel. Veit nákvæmlega hvað þarf til að bræða mig. Og heldur sjálfsagt að ég falli ennþá fyrir persónutöfrum hans, sannfæringarkrafti og jafnódýru bragði og því að segjast sakna mín, vitandi hversu einmana ég er. Eftir öll þessi ár skilur hann ekki ennþá að það sem fór með mig var ekki þetta tiltekna atvik í sjálfu sér, þótt það væri út af fyrir sig nógu slæmt, heldur varð það til þess að ég áttaði mig endanlega á því að ég gæti aldrei treyst honum, aldrei reitt mig á orð af því sem hann segði.
-Sannfærðu mig þá bara, sagði ég og hann þykist enn eiga eitthvað ósagt um málið, eitthvað sem þarf að bíða betri tíma. Hann vildi endilega bjóða mér í leikhús í kvöld, sagðist eiga frímiða – hvílík tilviljun og ég er nógu forvitin um það
hvað í fjandanum honum gengur til, til þess að þiggja það.
Sennilega er tilgangurinn hvorki merkilegur né flókinn. Hann er þessum árum eldri en áður, kannski kvenmannslaus og sennilega er hann að veðja við sjálfan sig um að hann „hafi það ennþá“. Tékka á því hversu létt honum reynist að húkka konu á tilfinningalegan vitfirringaröngul og ég er hæfilega áhugavert viðfangsefni, búin að krafsa rispu í skrápinn á honum einu sinni en viðkvæmari en flestar sem hann þekkir. Ég geri ráð fyrir að hann sé þokkalega ánægður með sig þessa stundina; tók ekki langan tíma að brjóta ísinn, hann hefur þetta sennilega ennþá, kannski hann geti stungið henni í rassvasann strax í kvöld. Ef hún skríður þá ekki ofan í hann sjálfviljug.
Nei minn kæri. Þrátt fyrir tilhneigingu mína til að brenna mig á sama grautnum aftur og aftur og einu sinni enn, þá er það ekki lengur svona auðvelt. Ég hef andlit barns, rétt er það, en gleymdu því ekki að þrátt fyrir allt hef ég gamalmennishendur. Ef ég væri ennþá reið, myndi ég skrópa. Láta þig bíða eftir mér. En ég er ekkert reið. Það er banalt að vera reiður við fólk sem er ekki til. Reyndar er líka banalt að fara í leikhús með fólki sem er ekki til en mig langar að sjá þetta stykki.