KVETCH

Ég hitti fortíðardrauginn aftur í kvöld og við fórum í Borgarleikhúsið og sáum KVETCH. Tilviljun? Ég held ekki. Geðsjúklingar og trúaðir sjá merkingartengsl í nánast öllum atburðum, hversu ómerkilegir sem þeir eru. Allt sem gerist felur í sér dýpri merkingu; endurspeglun á veruleikanum eða skilaboð, ýmist frá öðru fólki eða æðri máttarvöldum. Ég er hvorki trúuð né geðbiluð (þó sennilega ívið nær því) en ég sé svona merkingartengsl líka. Munurinn er sá að ég kýs að gera það. Mér finnst það einfaldlega flott.

Hann fór með mig í leikhús í kvöld. Það er táknrænt út af fyrir sig, fyrir öll okkar samskipti í gegnum tíðina. Nafnið á verkinu felur líka í sér merkingu. Ég veit ekkert um KVETCH en það er greinilega einhverskonar blekkingaspil eða feluleikur. Nema það sé eitthvað allt annað sem allir þekkja nema ég, t.d. heiti á einhverri alþjóðlegri stofnun eða eitthvað í sambandi við pólitík. Í því tilfelli munu bókmenntafræðingar sem lesa þennan póst, halda þeim möguleika opnum að ég hafi verið að villa um fyrir lesandanum með því að þykjast vera vitlausari en ég er. Svo munu þeir finna út hvernig KVETCH (hvur fjárinn sem það nú er) tengist táknmáli og atburðum sem koma fram í blogginu. Það er allavega eitthvað rosalega merkingarbært við þetta allt.

Við hittumst í Perlunni fyrr í dag og það er áreiðanlega táknrænt líka. Ég veit bara ekki hvernig. Auðvitað hljómar þetta eins og ég sé dálítið galin en ef þetta væri skáldsaga en ekki veruleiki, myndi einhver bókmenntafræðingurinn skrifa
grein um táknmálið í bókinni -og fá greitt fyrir það. Og fólk myndi ekki álíta hann bilaðan, heldur snjallan. Snilligáfa mín eða bilun (munurinn á þessu tvennu kemur einkum fram í því hvort maður kemst á spjöld sögunnar eða ekki) kemur sumsé fram í því að finna táknmál í mínu eigin lífi, fremur en bókum.

Hann ætlar að skrifa mér. Segja mér frá atburðinum. Því það var víst ekki eins og mér var sagt. Segir hann. Ég veit ekki hvað vakir fyrir honum. Ef það er ekki annað en að sannfæra mig um að hlutirnir hafi verið á einhvern annan veg en þann sem ég trúi, þá hefði hann sennilega komið fyrr. Varla tók það hann 9 ár að hugsa upp skýringu. Og þótt það sé áreiðanlega rétt að hann hafi saknað mín, (það væri furðulegt að sakna ekki hvílíkrar ofgnóttar af tilefnislausri ást og aðdáun) er hann samt varla svo grænn að halda að hann fái fleiri tækifæri til að kvelja úr mér vitglóruna með því að ljúga, svíkja og blekkja og skrúfa svo frá sjarmanum á réttu augnabliki. Það er listgrein út af fyrir sig og hann er góður í henni.

En ég orðin 36 ára og er ekkert og á ekkert og nú hef ég ekki lengur tíma til að þjást.

Best er að deila með því að afrita slóðina