Til yfirbótar

Og þá veit ég loksins hvað það var nákvæmlega sem gerðist. Sagan er trúverðug. Sennilega sönn. Atvikið er í sjálfu sér léttvægt. Geðshræringin sem skapaðist í kringum þig vegna þess á sér dýpri rætur, eins og þú reyndar veist.

Ég er ekki alveg búin að gera upp við mig hvaða augum ég mun líta heildarsamhengið í þessari einkennilegu atburðarás. Í seinni tíð hef ég hallast æ meir að þeirri skoðun að maðurinn sé það sem hann gerir, hvorki meira né minna og það er satt að segja stundum óþægilegt að burðast með þá afstöðu til mannskepnunnar. Það skiptir ekki öllu máli hvað mér finnst um þetta, það er hvort sem er ekki mitt að dæma. Hitt get ég sagt þér að hefðirðu sagt mér frá þessu strax, rétt og heiðarlega, hefði ég staðið með þér. Ég hefði ekki lagt blessun mína yfir allar þær hvatvíslegu ákvarðanir sem þú hefur tekið í lífinu en ég hefði ekki hafnað þér fyrir að vera það sem þú ert. Ég hefði m.a.s. sagt þér nákvæmlega hvernig þú hefðir getað firrt þig frekari vandræðum vegna þess sem þegar hafði gerst.

Og nú viltu gera yfirbót segirðu, ekki fyrir atvikið, enda ertu sennilega búinn að þjást nóg vegna þess, heldur fyrir það sem þú gerðir mér. Það er góð hugmynd og ég styð hana. Ég hvet þig til að gera yfirbót, yfirbót fyrir að hafa gert mig að hjákonu þinni, barnunga, svo unga að mér var tæplega sjálfrátt. Yfirbót fyrir að hafa mörgum árum síðar logið því að mér að þú leigðir herbergi hjá fjölskyldu sem reyndist vera einstæð móðir, í hverrar rúmi þú svafst um nætur. Yfirbót fyrir tímann eftir að því sambandi lauk. Þá ég skreið ofan í vasann þinn sjálfviljug og þú lést ekkert tækifæri ónotað til að minna mig á að ég hefði komið til þín af fyrra bragði. Fyrir öll skiptin, bæði þá, fyrr og síðar, sem ég beið eftir símhringingu sem aldrei kom, bréfi sem aldrei kom, manni sem aldrei kom nema þegar hann sjálfur var í skapi til þess. Bættu fyrir það.

Veistu hvernig konu líður þegar hún veit að hún er í þann veginn að missa manninn sem hún elskar? Veistu hvernig hún horfir bláum röntgenaugum sínum á hvern einasta hlut í íbúðinni og tekur eftir því ef eitthvað hefur verið fært úr stað eða því snúið um svo mikið sem tvær gráður? Veistu að þegar hún leggst á magann á gólfmottuna þína og þykist vera að lesa tímarit, er hún í rauninni að skoða kvenmannshár sem loðir við mottuna og hún veit að er ekki hennar eigið. Veistu að hún veit nákvæmlega hvernig þú raðar hlutunum í baðskápnum og að hún veit að þegar hennar eigin tannbursti hefur verið færður úr stað, þá eru það skilaboð frá hinni konunni. Að hin konan skilur eftir skilaboð, rétt eins og hundur sem merkir sér svæði, skilaboð sem karlmaður áttar sig ekki á en konan sér á augabragði. Hárteygju (þú ætlar vonandi ekki ennþá að halda því fram að þú hafir átt hana sjálfur?) kvenmannsilm í rúmfatnaði, ofurlitla rák eftir fingur í rykinu á skrifborðinu, lítinn miða af væng á nærbuxnainnleggi á baðgólfinu. Því ef dömubindi hefði lent í ruslinu hefðirðu sennilega tæmt það og þú hefðir fjarlægt flíkur annarrar konu og það veit hún. Skilaboðin komast samt sína leið, því hún hefur sjálf verið í sömu aðstöðu og veit hvernig kona horfir, þegar hún óttast að missa manninn sem hún elskar.

Ekki bæta fyrir framhjáhaldið, ég hefði látið það viðgangast hvort sem er. En bættu fyrir lygarnar, fyrir að halda mér í stöðugri óvissu um hvar ég hefði þig, því það átti ég ekki skilið. Bættu líka fyrir daginn þegar þú sagðir að þú hefðir ætlað að færa mér páskaliljur en hætt við. Ég væri nefnilega farin að gera kröfur til þín og þú værir hreinlega að kafna. Eins og mér hefði þótt vænt um að fá blóm. Í þetta eina skipti. Hvaða kröfur voru þetta annars? Hversu oft hafði ég annars samband við þig á þessum tíma? Tvisvar í viku? Já tvisvar, stundum jafnvel þrisvar og þá oftast til að fá skýringar á því hvers vegna þú hefðir ekki komið þegar þú hafðir sagst ætla að koma eða hringt þegar þú hafðir lofað að hringja. Ég gætti þess að hringja ekki oftar en það. Vildi ekki taka þá áhættu að flæma þig frá mér með þeirri kvenlegu kröfuhörku sem þú varst svo hræddur við. En jújú, mér varð það á að elska þig og sennilega varstu að kafna undan óverðskulduðum skilningi og elskulegheitum.

Og það er reyndar rétt að ég gerði kröfu. Eina kröfu. Ég krafðist þess ekki að þú kæmir. Ég krafðist þess ekki að þú hringdir. Ég óskaði eftir því í fyllstu auðmýkt en ég krafðist þess ekki. Ég krafðist þess ekki heldur að þú værir mér trúr. Á þessum tíma var ég löngu búin að átta mig á því að það væri ekki raunhæf krafa. En eina kröfu gerði ég þó, sjálfri mér til verndar, þá kröfu að þú segðir mér satt. Þá einu kröfu. Það var ekki stór krafa en þér tókst samt að koma inn hjá mér sektarkennd. Bættu fyrir það.

Bættu líka fyrir nóttina á eftir, þegar ég lá ein og engdist af sálarkvölum, eftir að hafa loksins horfst í augu við að hversu litlar kröfur sem ég gerði, jafnvel þótt ég sleppti þessari einu kröfu, jafnvel þótt ég hefði ekki einu sinni óskir, gæti þér aldrei orðið nógu annt um mig til að stoppa hjá mér lengur en í nokkrar vikur, í hæsta lagi 2-3 mánuði í senn. Bættu fyrir kvalræðið sem ég upplifði þá nótt. Ekki refsa sjálfum þér fyrir þá staðreynd að ég var þá þegar búin að hafna manni sem elskaði mig, þín vegna. Maður getur aldrei borið ábyrgð á heimskulegum viðbrögðum og ákvörðunum annars fólks. En maður ber sannarlega ábyrgð á þeim tilfinningum sem framkoma manns orsakar og já, það er tímabært að þú bætir fyrir það.

Bættu fyrir morguninn eftir, þegar lykillinn að íbúðinni minni lá á stofuborðinu, þar sem vasinn með páskaliljunum hefði með réttu átt að standa.

Bættu fyrir sorgina sem rifnaði upp einu sinni enn, þegar ég viku seinna laumaðist heim til þín um miðjan dag, þegar ég vissi að þú værir ekki heima, til að skila bók, án þess að þurfa að horfa framan í þig. Ég þurfti þess heldur ekki. Í staðinn var það hin konan sem tók á móti mér. Seinna sagðirðu mér að hún hefði komið óboðin og að ekkert væri á milli ykkar. Ég trúði því ekki. Það skipti heldur ekki máli hvort og hvað var á milli ykkar. Það sem skipti máli var að ég hafði enga ástæðu til að trúa orði af því sem þú sagðir. Bættu fyrir það.

Bættu fyrir mánuðina á eftir, fyrir árin á undan.
Bættu fyrir öll þau skipti sem ég fallið saman í fanginu á karlmanni og sagt: þegar þú ferð frá mér, láttu mig þá vita, ekki hverfa bara, ekki hundsa mig, og vitað um leið að það yrði nákvæmlega það sem hann gerði á endanum, því öll mín samskipti við karlmenn virtust ómeðvituð tilraun til að endurheimta sama kvalræðið.

Gerðu yfirbót, það er við hæfi og ég skal hjálpa þér, ég skal segja þér hvað þú átt að gera. Finndu stúlku. Nei annars ekki stúlku, það yrði hvorugu ykkar til góðs. Finndu konu á aldur við mig. Ekki veika, fatlaða, drykkfellda, gjaldþrota eða á annan hátt brjóstumkennanlega. Finndu konu sem er heilbrigð, falleg, hæfileikarík, lífsglöð en samt dálítið brothætt. Skrúfaðu frá sjarmanum (þú hefur hann ennþá), hlustaðu á hana þegar enginn annar gerir það, sýndu henni áhuga, gerðu hana ástfangna af þér. Og þegar hún er orðin svo tilfinningalega háð þér að það gengur geðbilun næst, þá skaltu gera yfirbót. Ég skal segja þér hvernig. Það er kannski ekki auðvelt þegar maður kann það ekki en það er einfalt að læra það. Það eina sem þú þarft að gera er að leggja eigingirnina í þér til hliðar og elska hana eins og á að elska.

Farðu til hennar þegar þú segist ætla að gera það og jafnvel oftar. Hringdu í hana þótt þú eigir ekki brýnt erindi. Gerðu fyrir hana það sem þú hefur sagst ætla að gera. Segðu henni satt, líka þegar sannleikurinn er óþægilegur. Hlustaðu á hana, sýndu henni athygli, segðu henni að hún sé falleg, faðmaðu hana -ekki bara þegar þú þarfnast þess sjálfur. Í stuttu máli; elskaðu hana.

Og gefðu henni blóm. Færðu henni þessar helvítis páskaliljur sem ég mátti ekki fá af því að ég hefði hugsanlega tekið því sem merki um að ég skipti þig einhverju ofurlitlu, hundaskíts máli. Gefðu henni páskaliljurnar sem ég mátti ekki fá, af því að ég hefði hugsanlega sofið rólega, þessa einu andskotans nótt. Þegar þú hefur fundið slíka konu og komið fram við hana eins og manneskju, þá geturðu fyrirgefið sjálfum þér. Og til þess er yfirbót.

Og nú vitum við hversvegna leikritið heitir KVETCH. Það merkir nöldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina