Hugrenning um fortíðardrauga

Fékk tölvupóst frá fortíðardraug sem telur sig eiga eitthvað ósagt. Hef ekki talað við hann í 9-10 ár. Það er ekki oft sem ég frysti fólk og ekki nema viðkomandi hafi gengið svo gjörsamlega fram af mér að ég flokka hann ekki lengur sem manneskju.

Ég geymdi móður mína í fyrstikistunni í 12 ár og 7 mánuði. Þá hringdi ég og sagði að hún gæti svosem komið í kaffi. Ekki af því að ég hefði þörf fyrir það sjálf, ég þarfnast ekki drauga, heldur af mannúðarástæðum. Ég frétti af því að hún væri eitthvað ósátt við að vera draugur og ég skil það svosem. Þoli ekki að vera hundsuð sjálf. Maður á að vera almennileg manneskja þegar það er mögulegt og þegar draugagangurinn er hættur að angra mann er það mögulegt.

Stundum er það eina sem maður getur gert, sjálfum sér til verndar, að líta á fólk sem drauga. Því draugar eru ekki til, nema sem minning um eitthvað sem er liðið og kemur aldrei aftur og það er alger óþarfi að láta svoleiðis fyrirbæri svipta sig svefni. En þegar þeir banka upp á og maður horfist í augu við veruleikann í bókstaflegri merkingu, fer maður samt að efast um gagnsemi frystingar. Því þótt maður sé löngu búinn að horfast í augu við veruleikann, afgreiða hann og setja á réttan stað í skúffuna, þá er hann þar áfram og fyrr eða síðar fer einhver að róta í skúffunni.

Þetta er annar fortíðardraugurinn sem bankar upp á, á 2 mánuðum og hinum gat ég vísað frá, þvi hann birtist af tilviljun, án markmiðs, án þess að hafa neitt að segja. Þennan verð ég allavega að hlusta á, því maður myndi sennilega gefa draug færi á að tala jafnvel þótt hann kæmi fram annarsstaðar en á miðilsfundi og maður hundsar heldur ekki manneskjur sem segjast eiga erindi. Ekki ef maður er almennileg manneskja og draugagangurinn hættur að angra mann.

Hvernig tæmir maður fortíðarskúffur?
Hvernig drepur maður draug?