Clouds in my coffee

Elskan. Þú ofmetur gáfur mínar. Ég er ekki eins og klár og ég lít út fyrir að vera og alls ekki nógu klár til að taka þetta furðulega útspil til mín. Einhver á nefnilega að taka það til sín er það ekki? Án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér, af því að það væri beinlínis heimskulegt af nokkrum manni að taka það til sín.

Æ, ég held að þú sért ennþá klárari en þú lítur út fyrir að vera. Ekki eins klár og þú heldur samt. Það eina sem svona óljósar dylgjur hafa upp á sig er að viðhalda forvitni minni, hvort sem þær eru ætlaðar mér eða ekki. Og sjáðu nú bara hvað ég er mikið barn. Nógu naív að láta þig vita að ég tók eftir því, þegar það gáfulegasta væri að láta sem það hefði aldrei hvarflað að mér að það hefði nokkra merkingu, hvað þá að þú ætlaðir mér þessa undarlegu sneið. Er ég ekki nánast brjóstumkennanleg í barnaskap mínum?

Auðvitað væri einfaldast fyrir þig að ræða bara hlutina hreint út ef þú hefur eitthvað að segja. Hvað mig varðar skil ég ekkert hvers vegna þú ert ekki búinn að því fyrir löngu. Því þú veist að ég er ekki beinlínis heimsk. Ég skil alveg það sem sagt er við mig, hreint út, þótt ég skilji ekki dylgjur. Yndið mitt. (Jú, þú ert í sannleika sagt, algjört yndi) Þér stendur þó ekki stuggur af einlægni minni?

Best er að deila með því að afrita slóðina