-Þú ættir auðvitað bara að skrifa, sagði Farfuglinn þegar ég lýsti örvæntingu minni yfir því að vita ekki ennþá hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór.
Ég er fjær því en nokkru sinni fyrr að eiga mér markmið, þótt synir mínir séu að verða fullorðnir og ég sjálf vakni með djúpar línur í enninu þegar mig hefur dreymt harkalega. Og það er satt hjá honum. Allt fólk í heiminum ætti að lifa á því sem gerir það hamingjusamt og þessvegna ætti ég bara að skrifa. Það gerir mig hinsvegar ekkert hamingjusama að skrifa blaðagreinar eftir pöntun eða vinna námsefni eftir markmiðum aðalnámskrár. Það gerir mig hamingjusama að gera það sem mér sýnist, þegar mér sýnist, á þann hátt sem mér sýnist, og ég hef ekki ennþá séð auglýsingu frá einhverjum sem leitar að þessháttar starfsfólki.
Til er fólk sem ætti að vera á launum fyrir að vera yndislegt. Systir mín æðruleysinginn t.d. Hún ætti bara að sitja hlæjandi í eldhúsinu og vera yndisleg, allan daginn. Ef slíkt starf væri í boði myndi ég ekki sækja um það. Ég yrði rekin fyrir hádegi og þótt ég hafi ævilanga þjálfun í því að taka höfnun, hefur mér ekki ennþá verið hafnað fyrir að ráða ekki við verkefni. En ég skammast mín ekkert fyrir að vera ekki yndisleg nema þegar það hentar mér. Ég myndi heldur ekki sækja um vinnu við að skrifa eitthvað eftir pöntun og það merkir ekki að ég sé slakur penni.
Reyndar sagði Maðurinn sem átti ekki tíkall, að ég væri yndisleg. Og það var satt. Samt fór hann frá mér.