Ilmur

Ég heimsótti félaga minn í gærkvöldi því hann þurfti að kynna mér smá verkefni sem hann vill fá mig til að vinna með sér. Það var kalt inni hjá honum svo hann lánaði mér peysu. Það var strákalykt af henni og mig langaði að grúfa andlitið niður í hana og andvarpa. En svoleiðis gerir maður ekki fyrir framan annað fólk. Allavega ekki fyrir framan eiganda peysunnar. Allavega ekki ef hann á konu. Eða unnustu eins og hann kallar hana.

Mér finnst mjög skrýtið að heyra fólk á mínum aldri nota orðið unnusta. Ég fór að hugsa um að kannski hefði unnustan verið í peysunni daginn áður og þá væri þetta ekki lyktin af honum heldur af þeim báðum. En ég fann enga unnustulykt af peysunni og mig langaði að taka hana með mér heim (þ.e.a.s. peysuna en ekki unnustuna) og grenja mig í svefn ofan í þennan yndislega ilm, sem ég tengi samt ekki við persónu heldur bara við dýrategundina karlmann.

Eva: Mig langar í snertingu.
Birta: Slíkt er ekki í boði góða mín.
Eva: Mig vantar snertingu.
Birta: Sýnist þér þetta eilífðarblóm ekki einfært um að klúðra lífi sínu?
Eva: Ég myndi ekkert láta það ganga lengra.
Birta: Hann er karlmaður bjáninn þinn. Karlmenn eru heimskir. Þeir gera ekki greinarmun á hormónasprengju og kynferðislegri einsemd. Hann myndi bara leggjast í sálarflækjur og sektarkennd.
Eva: Ég ÞARF snertingu.
Birta: Jájá. Maður fær ekki allt sem maður þarf.
Eva: Ég hef alltaf verið til staðar fyrir hann.
Birta: Og hann fyrir þig?
Eva: Nauhtsh!
Birta: Og hvað segir það okkur?

Mér líkar ekki alltaf sérlega vel við skynsemina í mér en ég á enga vini sem ég get síður verið án og hún er enginn vitleysingur svo ég leyfi henni venjulega að ráða. Þessvegna stoppaði ég ekki lengur en nauðsynlegt var. Þegar ég fór úr peysunni spurði hann hvers vegna ég væri svona „undirfurðuleg“. Það er líka orð sem enginn annar notar.

Ég sagðist bara vera svona en sannleikurinn er sá að ég var ekkert undirfurðuleg heldur bara vandræðaleg. Ég vissi nefnilega hvað hann hélt að ég væri að hugsa en ég var ekki að hugsa það sem hann hélt og mér fannst jafn vandræðalegt að nefna það og að þegja. Ég fann að hann fann alveg hvað mig langaði mikið í snertingu og hann var að hugsa um að sennilega hefði ég alltaf verið svolítið veik fyrir honum og ef hann faðmaði mig að skilnaði, gæti hann vakið í mér skrímslið. Og þar sem hann er ofurrómantískur tilfinningavingull, fannst honum áreiðanlega eitthvað mjög fallegt og ógnvekjandi við það. Og af því að hann er frekar edrú þessa dagana snerti hann mig ekki. En ef ég hefði boðið sérstaklega upp á það hefði hann samt gert það. Og það gerði ég ekki.

Ég var vandræðaleg út af þessu og kannski líka af því að mig langaði að segja við hann:
-Má ég taka peysuna þína með mér heim og grenja ofan í hana í nótt? Það er ekkert persónulegt. Ég þekki ekki einu sinni lyktina af þér og peysa af hvaða karlmanni sem er kæmi að sömu notum, svo framarlega sem hún væri ekki svitastokkin eða reykmettuð.
Og hann hefði sennilega ekki skilið það.Svo bara fór ég.

Það hvarflaði að mér að biðja Haffa um að lána mér bol til að grenja ofan í en hann reykir.

MimmiSan reykti ekki síðast þegar ég vissi og Keli reykir ekki heldur en maður bankar ekki upp á hjá virðulegum heimilisfeðrum undir miðnætti á föstudagskvöldi og biður frúna á heimilinu vinsamlegast að lofa sér að gramsa í óhreina tauinu. Svoleiðis bara gerir maður ekki. Þótt maður sé einmana. Auk þess eru fötin þeirra beggja sjálfsagt lyktandi af ungbarnaælu og eiginkonum.

Birta: Af hverju prófarðu ekki doktorinn? Ekki reykir hann.
Eva: Bíddu nú við! Átt þú ekki að vera skynsamari hlutinn af mér?
Birta: Ég held að það sé ekki eins galið og þú heldur. Það gæti orðið svona:

Eva: Afsakaðu að ég kem á svona ókristilegum tíma og ég veit að þú vilt ekkert giftast mér eða neitt en ég var bara að hugsa um hvort þú ættir ekki óhreinan bol til að lána mér. Með lyktinni af þér, þú skilur.
Doktorinn: Þú hlýtur að vera biluð kona Þú þekkir ekki einu sinni lyktina af mér.
Eva: Þú hlýtur að lykta eins og karlmaður, fjandinn hafi það.
Doktorinn: Eva mín, ég hef svolítið velt þessu fyrir mér með bilunina í þér og ég veit að þú drekkur ekki mikið en getur ekki verið að þú notir stundum mjög mikið kókaín? Það er hægt að hjálpa fólki eins og þér. Ég get fundið fyrir þig símanúmerið hjá SÁÁ ef þú vilt.
Eva: Ég nota ekki vímuefni, ég er bara svona. Fæ ég ekki bol hjá þér, það er ekkert persónulegt, ég þekki bara svo fáa sem reykja ekki.

Doktorinn: Hvað er þetta manneskja, geturðu ekki fengið þér dildó eins og aðrar konur?
Eva: Þú misskilur mig, þetta er ekki kynferðislegt, ég er bara einmana.
Doktorinn: Ég er líka einmana. Ég hegða mér ekki eins og fífl fyrir því.
Eva: Ég skal vera hjá þér ef þú ert einmana.
Doktorinn: Ég er einmana, ekki galinn.
Eva: En ég er samt hæfilega galin svo heldurðu að þú sýnir mér ekki það kærleiksbragð að lána mér óhreinan bol af þér?
Doktorinn: Hvað viltu þá næst? Skríða upp í rúm til mín og þefa af skegginu á mér?
Eva: Ekki skegginu, ég er svolítið hrædd við skegg.
Doktorinn: Já en ÉG er með skegg!
Eva: Ég veit það, þessvegna bið ég bara um óhreinan bol.

Doktorinn: Gott og vel ég held að ég skilji hvað þú meinar, þú mátt fá þennan.
Eva: Takk, ég skal skila honum á morgun.
Doktorinn: Ekki samt snýta þér í hann.
Eva: Nei, nei ég geri það ekki.
Doktorinn: Fæ ég ekki bol af þér í staðinn?
Eva: Auðvitað.
Doktorinn: Bíddu, ekki fara úr honum svo ég sjái.
Eva: Snúðu þér þá undan.

Doktorinn: Jæja, ég hef þá þinn og þú minn.
Eva: Já. Ég fer þá núna.
Doktorinn: Já. það er víst best.
Eva: Góða nótt.
Doktorinn: Góða nótt.

Eva: Heldurðu í alvöru að það yrði svona?
Birta: Ert´ekki í lagi? Auðvitað er ég að djóka í þér.
Eva: Þú ert belja.
Birta: Og þú ert fífl.

Það er svolítið skrýtið en þótt ilmur af karlmanni veki svona viðkvæmar kenndir hjá mér, þekki ég mennina í lífi mínu ekki í sundur á lyktinni. Ég myndi ekki þekkja lyktina af honum indæla, litla Halla mínum í dag, þótt hann hafi búið hjá mér og sofið í fanginu á mér í heilt ár. Ég myndi heldur ekki þekkja lyktina af manninum sem átti ekki tíkall og ég syrgði svo sárt að það gekk vitfirringu næst. Ég myndi hinsvegar þekkja óþefinn af bolnum sem hann skildi eftir hjá mér þegar hann fór, og ég grenjaði ofan í mánuðum saman, þar til fóstursonur minn tók af skarið og setti hann í þvott.
-Þú ert klikkuð Eva, sagði hann. Ef mannfýlan lyktaði eins og þessi bolur þá kæmi engin kona nálægt honum, hann fengi ekki einu sinni vinnu.
-Ilmurinn af honum er samt þarna líka, undir hinni lyktinni, þrætti ég.
-Komdu þér niður á jörðina manneskja, þessi viðbjóðslega flík lyktar eingöngu af eldgömlum nætursvita og hor úr þínu eigin nefi.

Þetta hljómaði skynsamlega og á endanum leyfði ég honum að setja bolinn í þvott. Hann bauð mér bol af sjálfum sér í staðinn en hann var bara 16 ára og notaði sjampóið mitt, svitaspreyið mitt og ilmvatnið mitt (Anais Anais) svo það var auðvitað ekkert það sama. Ég tók samt við bolnum, bara af því það var svo fallega hugsað af honum. Í dag þekki ég heldur ekki lyktina af honum fóstursyni mínum, enda er hann fullorðinn og hættur að nota ilmvatnið mitt.

Það er svolítið asnalegt að fara á límingunum við það að finna ilminn af líkama einhvers karlmanns, þótt maður þekki ekki einusinni lyktina af þeim sem manni þykir vænt um. Kannski er samt það skrýtnasta við þetta allt saman að eftir öll þessi ár þekki ég engan líkamsþef betur en lyktina af honum MimmaSan sem ennþá loðir við fatnað Pysjunnar þegar hann kemur heim eftir pabbahelgar.

Best er að deila með því að afrita slóðina