Mikið lifandi skelfing finnst mér mannlegt eðli ógeðslegt á köflum. Hvað annað en taumlaus illgirni getur valdið vinsældum allra þessara svokölluðu raunveruleika sjónvarpsþátta sem hafa það að markmiði að valda sem mestri geðshræringu, skömm og niðurlægingu, áhorfendum til gleði?
Ég þekki þessa þætti reyndar ekki vel, því það litla sem ég hef séð af þeim er þess eðlis að ég skammast mín fyrir að verða óbeint vitni að því. Ég horfði reyndar á íslenska popp-ædól þáttinn með systrum mínum um síðustu helgi og þar var það sama uppi á teningnum. Að vísu var mun meira sýnt af skemmtilegheitum stjórnenda en frammistöðu keppenda, en þegar barnung stúlka féll saman eftir að henni hafði verið hafnað, var myndavélunum beint að henni, lengur en nokkrum öðrum keppanda. Tilgangurinn er semsé ekki fyrst og fremst sá að sýna frammistöðu þeirra sem komast áfram, heldur vonbrigði þeirra sem fá höfnun og því verr sem þeir taka því, því glaðari verða áhorfendur. Þvílíkur viðbjóður. Og svo finnst fólki ég vera grimm!
Systir mín Anorexia er búin að telja mig á að horfa á einn þátt af glansgellum sem allar vilja giftast sama ríka piparsveininum. Mér segir svo hugur um að það sé ælurörsörvandi lágkúra en ég ætla samt að gefa einum þætti séns.