Ég vil fá greitt fyrirfram, sagði ég.
-Er það eitthvað nýtt hjá þér?
-Ég hef einu sinni þurft að rukka þig og mér leiðist að rukka.
-Treystirðu mér ekki?
-Hef ég einhverja sérstaka ástæðu til þess?
-Ég ætla nú ekki að reyna að sálgreina þig en ég held að þú verðir ekki hamingjusöm fyrr en þú lærir að treysta fólki. Ekki bara í fjármálum meina ég, heldur líka tilfinningalega, sagði athafnamaðurinn. Ég hló.
-Mér leiðist að rukka en tilfinningalega treystir enginn fólki betur en ég. Sjáðu bara bloggið mitt. Ég á ekki mörg leyndarmál. Ég stend hreinlega nakin frammi fyrir alheiminum fjandinn hafi það. Ber tilfinningar mínar á torg, einnig þær miskunnarlausu, lágkúrulegu og barnalegu. Ég efast satt að segja um að þú þekkir nokkra manneskju sem er jafn ónæm fyrir áliti annarra.
-Og þetta gerirðu í trausti þess að þú verðir ekki dæmd fyrir það sem þú ert?
-Ég geri þetta í trausti þess að þeir sem telja sig þess umkomna að dæma mig, séu hvort sem er hálfvitar, hverra álit skiptir mig nákvæmlega engu máli.
Athafnamaðurinn dæsti.
-Þetta heitir ekki traust góða mín. Þetta heitir að skeyta engu um velþóknun annarra og þar með skeytirðu harla litlu um eigin velferð. Í versta falli gætirðu dæmt sjálfa þig til útskúfunar þeirra sem skipta þig mestu máli.
-Þetta er mikil speki, sagði ég. Ég á semsagt að treysta fólki, án þess að það hafi endilega gefið mér sérstaka ástæðu til þess, en umfram allt án þess að sýna mitt rétta andlit? Af því að þá gætu þeir sem ég ætti að treysta hafnað mér. Ég á þá væntanlega að treysta fólki fyrir einhverri allt annarri manneskju en sjálfri mér. Og treysta því að ég fái vinnuna mína greidda án þess að fara fram á það?
-Ég veit ekki hvort þú misskilur mig eða hvort það er bara þrætugirnin í þér sem talar. Ég er bara að segja að stundum þarf maður að fara hægt í sakirnar. Af því að fólk er viðkvæmt sjáðu til. Fólk er ekki endilega fífl en fólk er viðkvæmt. Og fólk þarf líka að vita að það njóti trausts, ekki bara að það geti tekið þér eins og þú ert eða að öðrum kosti farið til fjandans.
-Þú ert sumsé að ráðleggja mér að höfða til lægstu hvata með trúnaðarhjali. Leyndarmál er nefnilega það sem maður segir bara einum í einu. Svo viðkomandi fái tækifæri til að fíla sig spes. Veistu það, stundum finnst mér mannlegt eðli verulega ógeðfellt.
-Þú hefur íróníska lífsafstöðu, sagði athafnamaðurinn. Ég dáist að hugrekki þínu en stundum dreg ég í efa bæði dómgreind þína og umhyggju þína fyrir sjálfri þér.
-Lífið er írónískt. Og þetta með hugrekkið er bölvað kjaftæði. Það þarf kjark til að gera það sem maður óttast. Það er ekki merki um hugrekki þótt maður láti sér standa á sama um það hvaða álit einhver fífl kunni að hafa á manni. Hvað dómgreindarskortinn varðar þá leggst ég ekki á höggstokkinn í ógáti. Ég veit hvað ég er að gera. Málið er bara að mér er sama. Fjandans, nákvæmlega, hundaskítsama. Hitt er svo annað mál að mér stendur ekki á sama um peningana mína. Það er nefnilega ákveðið frelsi í því fólgið að eiga peninga og einnig í því að hafa ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mann. Ég er kannski ekki ýkja hamingjusöm en ég met frelsi mitt ofar hamingjunni.
-Þú ert hrokagikkur og með rangt gildismat að auki. Sennilega ertu ennþá þeirrar skoðunar að hamingjan sé bara fyrir hálfvita?
-Það hef ég aldrei sagt. Ég hef hins vegar sagt að bjánum veitist auðveldara að vera hamingjusamir.
-Þér reynist auðvelt að kalla fólk bjána ef það hugsar ekki eins og þú.
-Ég kalla fólk bjána ef það hugsar ekki yfirhöfuð. Það er ekki erfitt að vera hamingjusamur fyrir þann sem neitar að horfast í augu við veruleikann og sjálfan sig. Það er gaman í bíó.
-Og þitt líf á ekkert skylt við bíó, sagði hann og kímdi.
-Jújú, vissulega. En minn leikaraskapur snýr ekki að sjálfri mér heldur umheiminum. Sjálfum sér til verndar verður maður alltaf að hafa einhverjar grímur. Ég vil hins vegar fækka þeim og hvað sjálfa mig varðar reyni ég að horfa grímulaus í spegil.
-Þú verður aldrei hamingjusöm á meðan þú sýnir sjálfri þér
annað eins miskunnarleysi.
-Ég hef oft verið hamingjusöm án þess að ljúga verulega miklu að sjálfri mér.
-Jæja, og hvenær þá?
-Alltaf þegar ég hef fengið greitt fyrir vinnuna mína möglunarlaust, án þess að þurfa að verja lífsafstöðu mína fyrir einhverjum hamingjusömum hálfvita.
-Þú ert hræðileg.
-I never promised you a rosegarden.
-Sjáðu til. Ég skil að þér finnist leiðinlegt að rukka og ég skal ekki láta þig ganga á eftir mér. Ég verð að fá þessi bréf fyrir helgi en get ekki borgað fyrr en um mánaðamót.
-Ææ, grey þú.
Hann horfði þegjandi á mig litla stund.
-Tekurðu þetta að þér ef þú færð helminginn núna?
-Ókei.
-Þú treystir mér er það ekki?
-Það veit ég nú ekki en lífið er svosem ekki áhættulaust, sagði ég og glotti kvikindislega.
-Þú ert samt hræðileg.
-Og hvað viltu að ég geri við þær upplýsingar? Ætlastu til þess að ég mótmæli því eða á ég að vera ægilega sorrý yfir því að þér finnist ég hræðileg?
-Æi láttu ekki svona. Þú ert að öðru leyti alveg ágæt.
-Veit ek þat.
-En ég. Er ég alveg hræðilegur?
-Nei, nei. Þú ert bara ósköp venjulegur hálfviti.
-Þú ert hræðileg.
-Só?
-Þú kemur þessu þá til mín?
-Já, ef þú verður búinn að leggja inn hjá mér.
-Þú veist að mér finnst þú góður penni þótt þú sért að öðru leyti hræðileg.
-Ég veit.