Söngur Freðýsunnar 2. þáttur

Eins og þú veist er ég kærleiksblóm í álögum.

Nei, minn blíði og fríði, það var ekkert sérlega klárt hjá þér að átta þig á því. Það þarf ekki snilligáfu til að sjá í gegnum mig og þú ert nákvæmlega jafn vitlaus og þú lítur út fyrir að vera.

Allavega, það sem ég vildi sagt hafa er þetta. Ég veit að þú vilt frelsa mig úr álögunum og ég met það mikils. Í alvöru, ég met það mikils. En það er ekki hægt. Mér nægir ekki samlíðunin með Ástu Sóllilju á jörðinni og þú átt ekkert meira að gefa. Nei. Ég geri ekki ráð fyrir að þú þekkir þessa Ástu Sóllilju en það skiptir ekki máli, þessi texti er einræða hvort sem er, ekki skrifaður þín vegna heldur sjálfrar mín. (Listamenn eru nefnilega egóistar dauðans og þar sem ég ætla að verða þjóðskáld þegar ég er orðin stór er víst ekki seinna vænna að fara að æfa mig í almennri eigingirni og öðrum skíthælshætti.) Og nei, ég fyrirlít þig ekki fyrir að þekkja ekki Ástu Sóllilju og kó. Ég er alls ekki eins snobbuð og þú heldur.

Nei gullið mitt, ég fyrirlít þig ekki fyrir að tilheyra öðrum heimi en ég, fyrir að hafa önnur hugðarefni, aðra þekkingu og annan hugsunarhátt en ég. Ég fyrirlít þig ekki baun en ég hata þig stundum svolítið. Ég hata þig þegar þú ert ert góður við mig, þótt ég sé eins og ég er. Ég hata þig þegar þú fyrirgefur mér fyrir að vera það sem ég er. Ég hata þig þegar þú reynir að bjarga mér frá sjálfri mér.

Ég þarfnast ekki hlýhugs. Ég þarfnast ekki fyrirgefningar. Ég þarfnast ekki björgunar. Það eina sem mig vantar í veröldinni er ást. Og ástin sprettur ekki bara af kærleika, ekki bara af ástríðu, heldur fyrst og fremst af skilningi. Og þú botnar ekkert í mér. Þú gætir ekki elskað mig vegna þess sem ég er. Þú gætir aldrei sagt við mig; prílaðu þarna upp ef þú endilega vilt drepa þig, ég verð til staðar þegar þú dettur. Ég hef aldrei borið neina sérstaka virðingu fyrir Snæfríði Íslandssól, þeirri uppskrúfuðu dekurrófu og ekki vil ég líkjast henni. En jafnvel þótt ég slægi af kröfunum yrðir þú ekki efstur á varamannalistanum. Ekki meðan líf þitt stjórnast af áfengi.

Nei, ég hata þig ekki fyrir þennan veikleika þinn. Stundum fyrirlít ég þig svolítið fyrir að takast ekki á við hann en ég hata þig ekki. Það ert ekki þú sem ert vandamálið, heldur ég. Málið er að ég botna ekkert í þér. Ég fyrirgef þér fyrir að vera það sem þú ert. Mig dauðlangar til að bjarga þér frá sjálfum þér. Og þessvegna gæti ég þess vandlega að vera hæfilega vond við þig. Svo þú hafir eitthvað til að fyrirgefa mér.

Best er að deila með því að afrita slóðina