Dylgjudagar framundan?

Dylgjur hafa aldrei verið mín sterka hlið. Ég veit ekki hvort það er orsök eða afleiðing en mér líkar ekki vel við sjálfa mig þegar ég reyni að beita þeim. Það sama á við um daður enda er þetta tvennt náskylt. Daður og dylgjur fara mér best í bundnu máli, í daglegum samskiptum vil ég helst að fólk viti nokkurn veginn hvar það hefur mig og komi eins hreint fram við mig og mögulegt er.

Flestum er öfugt farið. Flestir verða öryggislausir gagnvart þeim sem koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Flestir kjósa fremur að skríða í felur en verja sig. Mér er ýmist sagt að ég sé einlæg eða að ég sé naív. Hvorttveggja er rétt og það er hvorki gott né slæmt. Kannski er það nokkurskonar fötlun en mér stendur yfirleitt hjartanlega á sama um hvað öðru fólki finnst um mig. Ég hef þykkan skráp og ég veit ekki alveg hversu jákvætt það er en þegar sálin í manni er 6 ára, verður maður einhver ráð að hafa, sjálfum sér til varnar.

Ég hef aldrei átt erfitt með að koma fyrir mig orði. En gagnvart dylgjum er ég varnarlaus. Og sjáðu nú hvað ég er rosalega naív; ég segi þér hreint út hvernig þú getur -ef þú vilt, brotið mig niður. Og ég segi þér það ekki í trúnaði, ég set það á netið. Hvort það er merki um almenn naívheit, sjálfpíslarhvöt eða óendanlega trú á mannkærleika þínum, læt ég ósagt.

Ég kann oftast illa við dylgjur og ég held að það sé flestum gúmmtöffurum sameiginlegt. Hitt er svo annað mál að ég tek því fagnandi þegar hálfkveðnar vísur eru ánægjuleg staðfesting þess að þú látir svo lítið að hlusta á það sem ég hef að segja. Dylgjaðu þess vegna við mig ef þú hefur gaman af því. Ég treysti þér fyrir sjálfri mér. Kannski er
það afskaplega heimskulegt. Kannski ekki annað en sönnun þess að eitthvað hafi klikkað í uppeldinu á mér.

Sennilega flokkast þessi færsla sem dylgjur, þótt mér takist ekki eins vel upp og þér.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina