Laugardagur til leiða, sunnudagur hið sama

Síðasta rós sumarsins búin að fella krónuna. Hún stóð lengur en ég átti von á. Mun lengur.

Hef einu sinni séð Spúnkhildi bregða fyrir eftir að hún flutti út. Hún svarar hvorki heimasíma né gemsa, þrátt fyrir ítrekuð sms og talhólfsskilaboð. Kannski skemmtikrafturinn sé í rauninni úlfur í sauðargæru, haldinn satanískum hálskeðjulosta og hafi hlekkjað hana við rúmið? Varla við eldavélina, ekki sterkar líkur á að honum hafi tekist að þoka henni þangað. Eða kannski er hann bara svo óstjórnlega fyndinn að hún heyrir ekki í símanum fyrir hláturrokunum í sjálfri sér? Tjaldið hennar hefur legið í haug úti á lóð vikum saman, löngu farið að mygla og grasið undir því sjálfsagt steindautt. Engu líkara en að hún hafi skilið það eftir sem einhverskonar táknmynd fyrir vináttu okkar.

Eyddi deginum með systur minni Anorexíu. Henni leiðist horngrýtis einlífið jafn mikið og mér og það eina sem ég get sagt henni til huggunar er að fyrstu 10 árin séu verst, eftir það fari þetta kannski ekki beinlínis að venjast en maður hætti allavega að reikna með því að helgin verði nokkuð annað en hrútleiðinleg. Skröfluðum og þömbuðum kók í ótæpilegu magni. Ekkert skil ég í því hvað fólk fílar við þann alvonda drykk. Því síður skil ég í sjálfri mér að vera ekki löngu búin að sætta mig við að mér finnist kók bara einfaldlega vont. Fæ ekki einusinni sykurkikk út úr því (kannski af því ég gefst alltaf upp eftir 3 sopa). Það hlýtur að vera máttur auglýsinganna sem fær mig til að trúa því að pizza og kók fari vel saman. En skrafl er alltaf skrafl. Ekki ostur kannski en allavega skrafl. Á þessum eymdarinnar sunnudegi er það nú bara þó nokkuð.

Best er að deila með því að afrita slóðina