Söngur Freðýsunnar 1. þáttur

-Ertu hrædd um að verða ástfangin af mér? sagði Maðurinn sem drakk ekki konuna sína frá sér heldur reið hana bara frá sér á fylliríi.
-Nei Haffi.
-Af hverju viltu þá aldrei gista?
-Af því að mér finnst þetta rúm óþægilegt og svo hef ég ekkert að gera hérna þegar ég vakna, löngu á undan þér.

-Ég gæti gist hjá þér.
-Nei.
-Af hverju ekki?
-Ég kæri mig bara ekkert um að hafa annað fólk sofandi í rúminu mínu fram á miðjan dag.
-Er ég nú orðinn annað fólk? Stundum held ég að þér þyki ekki einu sinni vænt um mig.
-Hvaða forsendur hef ég til að þykja vænt um þig? Við þekkjumst ekkert og eigum ekkert sameiginlegt.
-Mér þykir vænt um þig.
-Greyið mitt byrjaðu nú ekki á einhverju bulli.
-Af hverju er það bull?
-Íslendingar eru ekki sérlega hrifnir af innistæðulausum ástarjátningum. Þeir sem meika ekki lágmarks heiðarleika, gengisfella hugtakið með því að taka upp innistæðulausar væntumþykjuyfirlýsingar í
staðinn. Ég fíla það ekki.

-Voðalegur kuldaboli geturðu verið. Af hverju heldurðu að það sé innistæðulaust?
-Skilgreindu fyrir mig væntumþykju. Hvern fjandann merkir það þegar þú segir svona lagað við mig?

Hann settist upp og kveikti ljósið. Horfði á mig eilítið ráðvilltur á svip.
-Þú ert undarleg kona. Ég veit að þú ert gáfaðri en ég en hversvegna geturðu aldrei talað við mig um eitthvað sem skiptir máli án þess að krefjast skilgreininga á öllu sem ég segi? Það er engu líkara en að maður sé lentur í lögregluyfirheyrslu í hvert sinn sem vottar fyrir ofurlítilli væmni hjá manni.
-Ég er hreint ekki eins gáfuð og ég lít út fyrir að vera. Hitt er svo annað mál að ég er haldin krónísku ofnæmi fyrir tilfinningalegum óheiðarleika. Ljúgðu upp einhverjum sögum ef þú vilt en hlífðu mér við tilfinningabulli.
-Ókei. Mér þykir þá ekki vænt um þig. Ég hugsa bara heilmikið til þín og sakna þín oft og hef stöðugar áhyggjur af því að einhver fari illa með þig, langar meira að sofa hjá þér en öðrum konum og drekk minna en mig langar bara til að þú nennir að koma. En gott og vel, mér þykir alls ekki vænt um þig. Ánægð?
-Já.

-Hvernig skilgreinir þú svo vætumþykju fröken alvitur?
-Ég tala ekki nógu mikið um slíkt af léttúð til þess að koma mér í sömu vandræði og þú. En þegar mér þykir vænt um einhvern, merkir það eitthvað meira en að mér sé hlýtt til hans. Það merkir að ég vil vera hluti af lífi hans og ef hann lamast fyrir neðan augnbrúnir verð ég til staðar. Ekki bara fyrstu tvo mánuðina heldur alltaf. Og það er ekkert slíkt samband á milli okkar. Við sofum saman af og til, það er allt og sumt og hvorugt okkar kærir sig um neitt meira. Um leið og annað okkar finnur bólfélaga sem það á meira sameiginlegt með, er þetta búið.

-Ég þoli ekki þessa helvítis heiðarleikaáráttu í þér. Mér líður drulluvel með þér en um leið og ég geri tilraun til að segja þér það verðurðu eins og snúið roð í hund og eyðileggur það fyrir mér. Ég er bara að reyna að vera góður við þig.
-Vertu þá svo vænn að hætta þessu endalausa kjaftæði um hluti sem þú hefur ekki vit á. Haltu bara utan um mig og strjúktu á mér bakið. Þannig er maður góður við mig.
-Sem ég hef ekki vit á!??? Veistu svolítið, ég er ekki alveg að fíla það hvernig þú talar niður til mín. Þú gerir ekki bara lítið úr því sem ég segi heldur talarðu við mig eins og ég sé krakki eða fábjáni.
-Hafðu ekki áhyggjur af því, það er ekkert persónulegt. Ég er haldin almennri mannfyrirlitningu og er truntuleg við alla. Amma mín sáluga sagði m.a.s. að ég væri alltaf eins og freðin ýsa.
-Þú ert það ekki neitt. Ekki nema mér verði það á að sýna þér elskulegheit.
-Slepptu því þá.
-Nei litli geitungurinn þinn, ég ætla ekki að sleppa því. Ég er nefnilega hreint ekki eins heimskur og ég lít út fyrir að vera og þú getur stungið mig eins oft og þér sýnist. Nóvei að ég taki því persónulega.

-Þú ert ágætur, sagði ég.
Svo var ég pínulítið góð við hann áður en ég klæddi mig. Og fór.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina