-Ég verð að losna úr þessari vinnu, sagði Farfuglinn. Ég hef óbeit á því hvernig er komið fram við starfsfólkið. Þetta ágæta fólk, þetta stórfína fólk sem hefur helgað fyrirtækinu stóran hluta lífs síns, unnið af fullkomnum heilindum fyrir skítalaunum og alltaf treyst fyrirtækinu. Svo þegar á að skipta konunum út fyrir yngri og sætari stelpur og losa fyrirtækið við karla sem vita alveg hvað þeir eru að gera en hafa kannski ekki skírteini upp á það, hvað heldurðu að fyrirtækið geri þá til að gefa þessu fólki séns? Ég skal segja þér það;
Við sendum staffið á námsskeið um einhverjar fjandans mýs sem eru að leita að einhverjum helvítis osti! Og fólk sem hefur aldrei gert neitt annað en að taka við skipunum, það á skyndilega að fara að sýna frumkvæði og hasla sér nýjan völl. Þetta er rangt, rangt, rangt. Og ég tek þátt í þessu helvítis ógeði.
-Eins og ég hef sagt þér áður þá skil ég ekkert í því hvernig þér datt í hug að fara að vinna þarna, sagði ég.
-Og þú sjálf? Þú ert löngu búin að finna ostinn þinn svo af hverju druslarðu þér ekki að stað til að sækja hann?
-Mestmegins metnaðarleysi býst ég við, (og í huga mér hljómaði lína úr kvæði sem Vísnavinir fluttu á sínum tíma, man ekki hver orti:
þig skorti hvorki vit né þrek í þraut
en þú ert ekki kominn lengra en hingað
-Ég held að það sé flóknara en það, sagði hann. Þú væflast um með vannýtta hæfileika í vasanum og skýlir þér á bak við metnaðarleysi en þú hefur heldur ekki myndað tengsl við karlmann þótt þig langi það virkilega. Ég held að fortíðin þvælist fyrir þér ekkert síður en metnaðarleysið og haldi þér á lægra plani en þú átt skilið.
-Fortíðin böggar mig ekki.
-Ekki vitrænt kannski en ég hef verið að hugsa um þetta og málið er að mér fannst alltaf öðruvísi að vera með þér en öðrum konum. Eins og þú hefðir svarthol í sálinni. Það er ekki hægt að elska konu sem hefur svarthol í sálinni.
-Hvernig svarthol?
-Ég get ekki útskýrt það frekar. Þú þykist vera laus við alla fortíðardrauga og spilar þig ferlega djollí en ég held að þú sért ekki rassgat hamingjusöm.
-Ég er ekkert að springa úr hamingju en ég er svosem ekkert óhamingjusöm heldur. Ég finn allavega ekkert fyrir þessu svartholi.
-Ég fann það.
Það hvarflaði að mér að biðja hann að taka mig í fangið og gá hvort svartholið væri þarna ennþá en svoleiðis gerir maður ekki. Þess í stað samþykkti ég að kannski hefði ég svarthol í sálinni og fyrst enginn kynni leið til að losna við það væri líklega ekki um annað að ræða en að lifa með því.
Ég kannast ekki þetta svarthol og hef litla trú á þessari skýringu en þar sem þetta rímar óneitanlega við kenningu Freuds hins akureyrska (hvers vegna í fjáranum er það ritað með litlu a-i?) um að ástleysið í lífi mínu stafi af einhverju sem hann kallar tengslaflótta (og ég kannast svosem ekki við heldur), er kannski ekki svo fráleitt að gefa henni séns. Þyrfti samt að leita staðfestingar. Ég velti því fyrir mér hvernig viðbrögðin
yrðu:
-Haffi, er ég öðruvísi en aðrar konur? Í bælinu meina ég.
Sennilega myndi hann horfa rannsakandi á mig á meðan hann opnaði þriðja bjór af kippunni fyrir svefninn.
-Kannski já, þú ert allavega með ákveðnar hugmyndir um hvað þú vilt ekki.
-Ekki svoleiðis öðruvísi bjáninn þinn. Vinur minn segir sko að ég sé með svarthol í sálinni. Finnst þér það líka?
-Hvernig svarthol?
-Bara svona svarthol sem veldur því að menn verða ekki ástfangnir af mér.
-Viltu að ég sé ástfanginn af þér?
-Nei í guðanna bænum, reynum að halda þessu ruglfríu.
-Áttu við að ég eigi að sýna þér meiri ástúð, kyssa þig oftar eða eitthvað svoleiðis?
-Nei. Gleymdu þessu bara, skiptir engu.
-Ókey, viltu bjór?
Kannski doktorsnefnan gæti gefið hlutlægt álit.
-Ring, ring!
-Drottinn minn dýri, ert þetta þú? Geturðu virkilega ekki fundið einhvern annan til að leggja í einelti?
-Ég ætla ekkert að heimta hjónaband strax eða neitt svoleiðis. Það er á 7 ára plani og liggur ekkert á. Ég þarf bara fræðilegt, hlutlægt svar við einni spurningu.
-Ég get gefið fræðileg, hlutlæg svör. Var það eitthvað varðandi Morkinskinnu?
-Nei, ég var meira að hugsa um hvort þú værir ekki til í að hafa mök við mig, bara einu sinni, til að gá hvort ég sé með svarthol í sálinni.
-Þarf ég að þá gera eitthvað skrýtið?
-Nei, nei, þetta yrði bara í vísindaskyni og þú mátt ráða stellingunni. Ég skal reyna að komast hjá því að hafa gaman af þessu og allt það.
-Má ég þá lesa á meðan? Ég er nefnilega með dósentinn á 5 ára planinu og má engan tíma missa.
-Nei, ég skil það. Eðlilegt fólk hefur markmið og það hvarflar ekki að mér að reyna að hindra þig í að ná þeim.
-Ég skal þá gera þetta fyrir þig. Í þágu vísindanna.
Nooot!
Á sínum tíma sagði ég Freud að það kæmi mér ekki að neinu gagni að vita hvað þessi ósýnilega fötlun héti eða af hverju hún stafaði. Það eina sem skipti mig máli væri að fá að vita hvað ég ætti að gera í þessu.
-Það er nú ekkert einfalt svar við því, sagði hann. Bætti svo við nokkrum hummum og jömmum áður en hann rukkaði mig um 6000 kall sem ég hefði betur notað til að kaupa rafgeymi í Grána litla.
Ég er allavega ekki á leið með að leggjast í fortíðargrát. Þegar allt kemur til alls skiptir litlu máli hver tók ostinn minn. Spurningin er miklu fremur hvar í fjandanum ég á að leita að nýjum?
[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]